Unnið að endurbótum á Mjólkurbúinu

Nú standa yfir framkvæmdir við Mjólkurbúið við Breiðumörk 26 í Hveragerði sem miða meðal annars að því að gera íbúð á 2. hæð hússins íbúðarhæfa.

Í íbúðinni kemur svo til með að búa sjö manna fjölskylda frá Sýrlandi sem væntanleg er nú til landsins í lok janúar.

Mjólkurbúið er eitt elsta hús bæjarins, byggt árið 1929 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Stofnun Mjólkurbús Ölfusinga og bygging hússins markaði upphaf þéttbýlis í Hveragerði.

Búið er að fjarlægja spónaplötuklæðningu og plasteinangrun innan af útveggjum 2. hæðar, endureinangra útveggi með steinullareinangrun og klæða þá með gifsplötum. Einnig er búið að lagfæra hitalagnir og einangra þak. Nú er verið að skipta um glugga á 2. hæð og færa þá til upprunalegs horfs.

Næsta sumar verður lokið við að skipta um glugga á húsinu en þá verður einnig þakjárn og þakrennur endurnýjaðar og farið í múrviðgerðir á útveggjum og þeir málaðir.

Ráðgjafar við framkvæmdina eru Sigurður Þ. Jakobsson tæknifræðingur og Stefán Örn Stefánsson arkitekt.

Fyrri greinFjögurra manna fjölskylda lenti í sjónum
Næsta greinBanaslys við Kirkjufjöru