HSU byrjar nýtt ár án greiðsluhalla gagnvart Ríkissjóði

Í árslok 2016 fékk Heilbrigðisstofnun Suðurlands staðfestingu á því frá Velferðarráðuneytinu að 80 milljónum króna hafi verið veitt til HSU frá ráðneytinu upp í rekstrarhalla ársins 2016 og jafnframt til tækjakaupa.

Einnig hefur fjárlaganefnd Alþingis samþykkt að veita aukalega 150 milljónum króna á sjúkrasvið HSU í samræmi við fjáraukalög 2016 sem samþykkt voru í þinginu rétt fyrir jól. Féð hefur verið nýtt til að greiða upp vanskil síðustu mánaða og greiða kostnað við nýtt röntgentæki á Selfossi.

Í gamlárspistli sínum segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, að það sé alveg sérstakt gleðiefni að nú í fyrsta sinn frá sameiningu heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi er HSU með heilbrigðan efnahag, rekstrarreikning ársins í jafnvægi og byrjar nýtt ár án þess að vera með greiðsluhalla gagnvart Ríkissjóði.

Á síðasta ári var lögð mikil vinna í að endurskipuleggja rekstur HSU í heild sinni. Í upphafi ársins 2016 voru fjárframlög til stofnunarinnar 8% undir því sem eldri stofnanir sem tilheyra HSU fengu fyrir hrun, árið 2008.

Unnið hefur verið ötullega að því að greina rekstararlegar forsendur og ráðuneyti og öðrum hagsmunaaðilum var gert viðvart að ekki væri hægt að halda áfram óbreyttum rekstri í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi með óbreytta fjármögnun.

Fyrri greinAlvarlegt flugeldaslys í Þorlákshöfn
Næsta greinLeitað að fólki á Langjökli