„Besta ár lífs míns“

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson var kosinn Sunnlendingur ársins 2016 af lesendum sunnlenska.is. Hann segir árið hafa verið ótrúlega viðburðaríkt.

„Það var svo svakalega mikið í gangi hjá mér á þessu ári en hápunkturinn er að sjálfsögðu Evrópumótið í heild sinni. Minn persónulegi hápunktur var að ná að skora á móti Austurrríki. Það er draumur allra fótboltamanna að ná að skora á stórmóti. Það er hálf asnalegt að geta sagt þetta, að hafa skorað á EM, en þetta er eitthvað sem allir fótboltakrakkar ímynda sér. Þegar ég hugsa til baka þá var þetta svakalega skemmtilegt, ekki bara markið heldur mótið í heild sinnni. Ef einhver hefði spurt mig fyrir nokkrum árum hvort ég ætti eftir að spila á EM þá hefði ég hlegið að honum. Það er magnað að hafa upplifað þetta.“

Árið hjá Jóni Daða hófst með flutningi frá Noregs til Þýskalands, þegar hann yfirgaf Viking í Stavangri og gekk í raðir Kaiserslautern.

„Ég var miklu styttra í Þýskalandi heldur en til stóð, bara hálft tímabil. Ég stóð mig ágærlega en síðan kemur EM og þá breytist allt. Allt í einu verður miklu meiri áhugi á mér sem leikmanni heldur en ég hef áður upplfiað, þannig að mótið var mikill gluggi. Eftir EM var allt í óvissu, því þetta er ekki í höndunum á manni sjálfum. Ég var með samning við Kaiserslautern og þeir gátu neitað öllu. Ég vissi af áhuga Wolves og þeir gerðu mjög gott tilboð.“

Þarna rættist annar draumur Jóns Daða.

„Mig hefur alltaf dreymt um að komast til Englands. Maður er alinn upp við að horfa á enska boltann og það var draumaáfangastaðurinn alveg síðan ég byrjaði að sparka í bolta. Ég gæti ekki verið hamingjusamari og ég vona að ég verði hérna lengi. Mér líður vel hérna og fótboltinn hentar mér,“ segir Jón Daði.

Hann býr ásamt kærustu sinni, Maríu Ósk Skúladóttur, í Wolverhampton í fimm mínútna fjarlægð frá æfingasvæði Úlfanna. Jón Daði fékk móður sína og bróður í heimsókn yfir hátíðarnar, en knattspyrnumenn á Englandi fá ekkert frí á þessum árstíma.

„Nei, við náðum ekki að halda upp á jólin eins og við vildum. Ég fékk frí á aðfangadag og svo var leikur á jóladag. Það var gott að vera með fjölskyldunni en ég varð að passa mig á því að missa mig ekki í matnum eins og venjulega,“ segir Jón og hlær. „Áramótin eru svipuð, það var leikur á gamlársdag og svo erum við að spila aftur á morgun, 2. janúar,“ segir Jón, en þegar viðtalið var tekið var hann í liðsrútunni á leið til Sheffield.

Jón Daði sigraði með nokkrum yfirburðum í kosningunni um Sunnlending ársins en hann segir að valið hafi komið sér á óvart. „Mér hálfbrá og varð bara orðlaus þegar þú tilkynntir mér þetta í gær. En það er bara skemmtilegt að hafa fengið þennan titil og gerir mann stoltan. Þetta er búið að vera fáránlegt ár og allt hefur gerst svo hratt. Þetta er besta ár lífs míns og einhvern veginn verð ég svo glaður og hamingjusamur þegar ég hugsa til baka og lít yfir árið. Það er gaman að enda þetta svona.“

Fyrri greinFyrsta barn ársins fæddist á Selfossi
Næsta greinSuðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss