Skrifað undir viljayfirlýsingu um stuðning við Kötlu jarðvang

Á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) á Hnappavöllum í Öræfum var undirrituð viljayfirlýsing um fimm ára stuðning ríkisins við Kötlu jarðvang (Katla UNESCO Global Geopark).

Katla jarðvangur (Katla Geopark) var stofnaður sem sjálfseignarstofnun 2010 að frumkvæði Háskólafélags Suðurlands (HfSu) og sveitarfélaganna, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Jarðvangar (Geoparks) eru svæði sem hafa að geyma jarðminjar á heimsmælikvarða og er ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, m.a. með áherslu á eflingu innra hagkerfis viðkomandi svæða.

Með undirrtiun viljayfirlýsingarinnar staðfesta forsætisráðuneytið og stjórn Kötlu jarðvangs vilja sinn til samstarfs um fjármögnun Kötlu Geopark næstu 5 árin. Svæði Kötlu jarðvangs nær jafnframt yfir nokkra vinsælustu ferðamannastaði landsins þar sem álagið hefur stóraukist á allra síðustu árum. Jarðvangurinn er mikilvægt samstarfsverkefni sveitarfélaganna þriggja við að takast á við þessar krefjandi aðstæður í góðri samvinnu við yfirvöld og íbúa svæðisins.

Forsætisráðuneytið, í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar, mun beita sér fyrir 20 milljón króna fjárframlagi úr ríkissjóði á ári í 5 ár. Með slíku fjármagni má ráða tvo starfsmenn og styrkja þannig rekstur og starfsemi jarðavangsins. Í dag er um eitt stöðugildi sem sinnir starfseminni á kostnað sveitarfélaganna.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd ríkisins og þau Ásgeir Magnússon sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Eva Björk Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps og Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra fyrir hönd jarðvangsins og sveitarfélaganna þriggja.

Fyrri greinNýtt lag og myndband frá Flekum
Næsta greinGróusúpa