Þorláksskógar gætu orðið næsta stórverkefni í skógrækt

Viðræður eru hafnar milli Skógræktarinnar, Landgræðslu ríkisins, Sveitarfélagsins Ölfuss og Skógræktarfélags Íslands um uppgræðslu í Þorláksskógum í Ölfusi, í nágrenni Þorlákshafnar.

Árni Bragason, landgræðslustjóri og Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri hafa átt viðræður um málið og eru þeir sammála að taka höndum saman og vinna að framgangi Þorláksskóga að því tilskyldu að fjármagn sé til reiðu.

Þegar samstarfsamningur um Hekluskóga var undirritaður fyrir skömmu nefndi Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra umrætt landsvæði sem dæmi um næsta stórverkefni á sviði landgræðslu og skógræktar.

Á dögunum var haldinn fundur með starfsmönnum sveitarfélagsins Ölfuss og Landgræðslunnar. Á fundinum voru þátttakendur voru sammála um að íbúum Þorlákshafnar yrðu sköpuð betri búsetuskilyrði ef Þorláksskógar yrðu að veruleika. Starfsmenn sveitarfélagsins bentu á að hugmyndir heimamanna um framtíð sveitarfélagsins fælust í „grænum“ áherslum og féllu Þorláksskógar vel að þeirri hugmyndafræði.

Í frumdrögum að framkvæmdaáætlun fyrir Þorláksskóga var á sínum tíma gert ráð fyrir að rækta landbótaskóga í landi Sveitarfélagsins Ölfuss. Þar kom líka fram að hluti skógræktarsvæðisins næst bænum yrði gerður að almenningsgarði.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (f.v.) Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss, Guðmundur Stefánsson, sviðsstjóri Landverndarsviðs Landgræðslunnar, Anna Björg Níelsdóttir, formaður skipulags-, bygginga- og umhverfisnefndar Ölfuss, Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórar Ölfuss, Guðjón Magnússon, fræðslu- og kynningarstjóri Landgræðslunnar, Árni Bragason, landgræðslustjóri, Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss og Garðar Þorfinnsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar. Fundinn sat einnig Sigurður Jónsson, skipulags og byggingafulltrúi Ölfuss.

Fyrri greinHvessir aftur í kvöld
Næsta greinÞórólfur Julían: Gerum eitthvað magnað, endurræsum Ísland