Óvissustigi lýst yfir vegna jarðskjálfta í Kötlu

Ríkislögreglustjórinn í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi hefur ákveðið að virkja viðbragðsáætlun vegna eldgoss undir Mýrdalsjökli á óvissustigi.

Jarðskjálftahrina hófst um hádegisbilið 29. september og stendur enn yfir. Vísindaráð almannavarna telur líklegt að hrinan stafi af kvikuhreyfingum í Kötlu, en enn hafa engin merki um gosóróa mælst.

Eftirfarandi atburðarrásir eru taldar líklegastar:

1. Jarðskjálftahrinan hættir án frekari atburða.

2. Jökulhlaup kemur fram í ám vegna minniháttar eldgoss eða tæmingar á jarðhitakötlum.

3. Eldgos hefst í Mýrdalsjökli sem nær að brjóta sér leið í gegnum jökulinn. Afleiðingar gætu verið jökulhlaup í ám sem renna frá jöklinum ásamt öskufalli.

Að framansögðu er varað við ferðum í og við jökulár sem renna frá Mýrdalsjökli. Sérstaklega má tiltaka Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.

Fyrri greinLitakóða Kötlu breytt í gulan
Næsta greinLokað inn að Sólheimajökli