Leggið bílunum á hentugum stöðum fyrir norðurljósasýninguna

Lögreglan á Suðurlandi gerir ráð fyrir að margir muni horfa til himins í kvöld ef norðurljósaspáin rætist. Ökumenn eru beðnir um að stöðva bifreiðar sínar ekki á vegum eða vegöxlum til að fylgjast með ljósadýrðinni.

„Vegna þessarar sýningar á fólk til með að stara upp í loftið og hugsa lítið um það sem er að gerast í kringum það og á það jafnt við um Íslendinga sem og erlenda ferðamenn,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni en í kvöld má gera ráð fyrir að mikið verði horft upp til himins þegar ein stærsta sýningin til þessa fer fram.

Lögreglan á Suðurlandi biður því fólk sem ferðast um og ætlar að skoða norðurljósasýninguna að stöðva bifreiðar sínar ekki á vegum eða vegöxlum heldur finna sér hentugari staði sem er víðsvegar að finna. Þá eru vegfarendur beðnir um að hafa allan vara á, eins og alltaf á að gera, gagnvart fólki sem hefur stöðvað bifreiðar sínar á og við vegi.

Lögreglan óskar einnig eftir því að fararstjórar og aðrir sem ferðast með hópa hugi að því að velja aðra og hentugari staði en þjóðvegina til að stöðva hópferðabifreiðar til að skoða norðurljósin.

Fyrri greinBókin „Forystufé“ er komin út
Næsta greinSpilað á sögufrægan flygil