Afhentu sjónvarp í Álftarimann

Knattspyrnufélag Árborgar afhenti skammtímavistuninni í Álftarima 2 á Selfoss glæsilegt sjónvarpstæki sem keypt var fyrir ágóðann af góðgerðarsjoppu Árborgar í sumar.

Á heimaleikjum Knattspyrnufélags Árborgar var starfrækt góðgerðarsjoppa þar sem viðskiptavinir greiddu fyrir vörurnar með frjálsu framlagi sem allt rann í söfnunina.

Þetta er annað árið í röð sem Árborgarar safna til góðgerðarmála en í fyrra gaf knattspyrnufélagið Lay-Z-Boy stól í Kotið, sem er frístundaheimili fyrir fötluð börn á Selfossi.

„Þetta gekk mjög vel hjá okkur og það er gaman að geta gefið eitthvað til baka til samfélagsins. Við erum stoltir af því að geta stutt við bakið á starfseminni hér í Álftarimanum,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, þegar hann afhenti sjónvarpið.

Brynhildur Jónsdóttir, forstöðukona skammtímavistunarinnar, sagði að gjöfin hafi komið sér einstaklega vel því skömmu áður en sjónvarpið var afhent hafi eldra tækið á heimilinu skemmst. „Við erum ákaflega þakklát fyrir þetta skemmtilega framtak og þennan góða stuðning frá knattspyrnumönnunum,“ sagði Brynhildur.

Skammtímavistunin léttir álagi af fjölskyldum fatlaðra barna, ungmenna og fullorðinna sem búa í heimahúsum. Þar er áhersla lögð á eflingu athafna daglegs lífs og félagsfærni, auka lífsgæði og sjálfstæði þeirra sem þar eru.

Fyrri greinDagný og Gummi Tóta meistarar
Næsta greinSkjálfti upp á 3,9 í Kötlu