Viðar ráðinn prestur í Vestmannaeyjum

Viðar Stefánsson, 26 ára gamall guðfræðingur frá Ásaskóla í Gnúpverjahreppi, hefur verið ráðinn prestur við Landakirkju, Vestmannaeyjaprestakalli frá og með 1. september næstkomandi.

Þetta var niðurstaða valnefndar sem sat að störfum í vikunni og tók viðtöl við þá fjóra umsækendur sem sóttu um starfið. Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands staðfesti svo val nefndarinnar í gær.

Eyjafréttir greina frá þessu.

Viðar hefur starfað sem leiðtogi í barnastarfi m.a. í Skálholti og í Áskirkju í Reykjavík og hefur starfað sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ undanfarna mánuði. Þessa stundina leggur hann stund á sálgæslufræði á framhaldsstigi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Fyrri greinDramatískt gegn toppliðinu
Næsta greinLeggja rafmagnið í jörð í Mýrdal