Haraldur gefur ekki kost á sér

Haraldur Einarsson, alþingismaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér fyrir alþingiskosningarnar sem fara fram í haust.

Haraldur, sem er 8. þingmaður Suðurkjördæmis, greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni í morgun.

Haraldur gekk að eiga Birnu Harðardóttur um síðustu helgi og hafa nýbökuðu hjónin ákveðið að flytjast ásamt börnum sínum til foreldra Haraldar á Urriðafossi og fara í búskap með þeim.

„Ég er þakklátur og stoltur fyrir þann tíma sem ég hef fengið að vinna fyrir land og þjóð. Ég er stoltur af verkum ríkisstjórnarinnar undir forystu Framsóknarflokksins og það er ekki allt sem sýnist inni á Alþingi. Hvet að lokum alla þá, sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera þjóðfélagið okkar betra og sanngjarnara að bjóða sig til starfa á löggjarfarsamkomunni,“ segir Haraldur í tilkynningu sinni.

Fyrri greinSóttu veika konu á Fimmvörðuháls
Næsta greinEngin tilboð bárust – of mikið að gera hjá verktökum