Áhuginn kviknaði á meðgöngunni

„Ég kunni grunninn í prjónaskap en hafði aldrei orðið svo fræg að ná að ljúka við flík eða stykki.

Þegar ég varð ólétt af dóttur minni var ég svo ákveðin í að prjóna heimferðarsett á frumburðinn. Það gekk ekki eftir en náði þó að kveikja áhugann,“ segir Selfyssingurinn Fanney Svansdóttir.

Tvö ár eru síðan Fanney byrjaði að hanna og prjóna barnaföt undir merkinu Ylur. Síðan þá hefur merkið vaxið og dafnað og hefur hönnun Fanneyjar hlotið verðskuldaða athygli, bæði hér heima og erlendis.

„Ég gerði heiðarlegar tilraunir til að prjóna eftir uppskriftum en fann mig bara ekki í því. Áhuginn á hönnun hefur alltaf blundað í mér og nú er hönnunin uppáhalds hluti starfsins hjá mér,“ segir Fanney sem stefnir á að fara í nám í textílhönnun á allra næstu árum.


Ljósmynd Steinrún Ótta Stefánsdóttir

„Mér finnst skemmtilegt að prjóna og er alltaf að bæta við mig tækni og kunnáttu, “ segir Fanney, en skömmu eftir að hún náði almennilegum tökum á prjónalistinni ákvað hún að stofna Facebook síðu fyrir hönnunina.

„Nafnið Ylur kom strax til mín en það sameinar allt það sem flíkurnar er – mjúkar, hlýjar og krúttlegar. Í desember síðastliðnum opnaði ég svo vefsíðuna ylur.is,“ segir Fanney.


Ljósmynd Katrín Aagestad

Kærastinn prjónar líka
Fanney segir að um svipað leiti hafi Arnar sambýlismaður hennar komið inn í verkefnið. „Hann gerði sér lítið fyrir og lærði á prjónavél. Það að fá aðra manneskju í fyrirtækið jók afköstin umtalsvert og nú erum við með vörur í sex verslunum hér heima og erum að undirbúa sölu í verslunum erlendis líka.“

Aðspurð segir Fanney að flíkurnar henti börnum á aldrinum 0-10 ára. „Við notum aðeins alpacaull sem er alveg sérstaklega mjúk og laus við ofnæmisvalda og hentar því vel fyrir viðkvæma húð.“


Ljósmynd Katrín Aagestad

Flokkar ekki fötin eftir kyni
„Flíkurnar frá Yl eru langflestar fyrir bæði kynin. Ég legg mikið uppúr notagildi og legg yfirleitt ekki mikla áherslu á að flokka föt sem annað hvort stráka- eða stelpuföt. Einn af dásamlegum eiginleikum prjónaflíka er hversu lengi þær endast. Ein stærð hjá mér spannar í rauninni fjórar hefðbundnar stærðir.“


Ljósmynd Katrín Aagestad

Dömulína væntanleg
„Ylur á hug minn allan og ég ætla mér stóra hluti með þetta litla barn mitt. Það er margt spennandi að fara í gang hjá okkur. Ég hef gaman af smækkuðum útgáfum af fullorðins fötum og er að vinna í nokkrum flíkum fyrir aðeins eldri hóp en ég hef verið að einblína á hingað til. Svo er á stefnuskránni að gera svolitla dömulínu sem er alveg nýr fókus hjá mér því eins og ég sagði áðan þá hef ég yfirleitt ekki flokkað fötin í stelpu og stráka. En við sjáum hvað kemur útúr þessari pælingu,“ segir Fanney að lokum.

Fyrri greinJörð skalf við Hrafntinnusker
Næsta greinMikill fjöldi utankjörfundar-atkvæða