38 milljónir í 87 verkefni

Uppbyggingarsjóði Suðurlands bárust nú í fyrri úthlutun ársins 137 umsóknir. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að fjöldi umsókna og fjölbreytileiki verkefna sé ágætt merki um heilbrigði og grósku í samfélaginu.

Að þeirra sögn komu mörg verkefni til álita að þessu sinni og var 87 verkefnum veittur styrkur. Heildar fjárhæð styrkveitinganna nam um 38 milljónum. Úthlutað var um 19 milljónum króna til 56 menningarverkefna og um 19 milljónum króna 31 nýsköpunarverkefnis.

Hæstu styrkina í menningarhlutanum hlutu kunnugleg nöfn, Katla jarðvangur, sem fékk eina milljón króna til verkefnis er ber nafnið GeoSkólar. Gullkistan á Laugarvatni hlaut einnig eina milljón króna. Íslenski bærinn í Flóahreppi fékk 800 þúsund krónur. Verkefni sem ber heitið Handverk í Öræfum hlaut 700 þúsund krónur, líkt og Saga Fest félagasamtök og Sögusetrið á Hvolsvelli. Listasafn Árnesinga , Bókabæirnir austanfjalls og fleiri eru einnig í hópi þeirra sem hlutu hæstu styrkina í menningarstarfi.

Styrkveitingar vegna nýsköpunar voru færri, en hæsta styrkinn fékk Lumen ehf, 1.650 þúsund krónur til verkefnis sem ber heitið Ræktun í nýju ljósi. Midgard Adventure hlaut 1,5 milljónir fyrir grænt samfélagsverkefni, og milljón krónur fóru í uppbyggingu á aðgengi og umhverfi að Hellnahelli, til aukningar og eflingar útiræktunar í færanlegum gróðurhúsum, geitaafurðir í Flóanum og fleiri.

Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja menningar-og nýsköpunarverkefni í landshlutanum. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.

Hægt er að sjá allan listann á heimasíðu SASS.

Fyrri greinRangæingar fengu skell
Næsta greinÓvæntir tónleikar á Hafinu bláa – myndband