80 ára afmælishátíð Umf. Selfoss á laugardag

Ungmennafélag Selfoss fagnar 80 ára afmæli í ár, en félagið var stofnað 1. júní 1936. Í tilefni þessa merka áfanga heldur félagið glæsilega afmælishátíð laugardaginn 28. maí þar sem lögð verður áhersla á hreyfingu og gleði fyrir alla fjölskylduna.

Dagskráin hefst með síðasta Grýlupottahlaupi ársins hjá frjálsíþróttadeildinni, kl. 11:00 en skráning hefst kl. 10:30 í Tíbrá. Kl. 12:00 verður opnuð Hreystibraut frá Skólahreysti fyrir alla fjölskylduna í íþróttahúsi Vallaskóla þar sem gestir geta spreytt sig á skemmtilegum þrautum. Brautin verður opin til kl. 17:00

Kl. 14:00 hefst hátíðardagskrá í íþróttahúsi Vallaskóla þar sem fluttar verða stuttar og skemmtilegar ræður ásamt því að góðir félagar Umf. Selfoss verðar heiðraðir. Meistaraflokkur Selfoss í hópfimleikum verður með glæsilega sýningu og rúsínan í pylsuendanum er æsispennandi keppni allra deilda félagsins í hreystibrautinni.

Að hátíðardagskránni lokinni verður kaffihlaðborð í Vallaskóla og á sama tíma pylsugrillveisla á Selfossvelli. Lokahnykkur hátíðarhaldanna er svo kl. 16:00 þar sem meistaraflokkur kvenna tekur á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Þar verður frítt á völlinn í tilefni dagsins.

Fyrri greinSelfoss fékk Víði heima
Næsta greinDavíð á Suðurlandi um helgina