Leitin að flottustu grillveislunni heldur áfram

Á Kótelettunni 2016 sem haldin er Selfossi dagana 10. til 12. júní nk. verður líkt og undafarin tvö ár veitt verðlaun fyrir flottustu grillveisluna í heimahúsi.

Leitast er eftir skemmtilegri stemningu af ýmsum toga og eru þar nokkrir þættir sem hafa áhrif á val dómnefndar, fjöldi gesti, matarsamsetning, fjöldi aðkomumanna og önnur uppátæki skipta þar máli.

Í fyrra bar sigur úr býtum fjörlegt grill í Egilshöll hjá Agli Guðjónssyni og félögum þar sem heilgrillað var lamb og voru um 60 manns þar samankomin og mikið fjör. Egill og félagar voru á dögunum heimsóttir af dómnefndarmönnum og fjölmiðlafulltrúa Kótelettunnar, Bergsveini Theodórssyni, og þeim afhentir miðar á komandi hátíð auk eignarskjaldar.

Hátíðin vex með hverju ári og er þátttaka heimamanna sífellt að aukast, en í fyrra barst gríðalegur fjöldi mynda í keppnina. Sunnlendingar eru hvattir til að endurtaka leikinn, opna hús sín og bjóða til grillveislu. Það eina sem fólk þarf að gera er að taka skemmtilegar og líflegar myndir, setja þær inn á Instagram með kassamerkinu (hashtag) #grillpartyarsins2016 eða senda mynd í tölvupósti á grillveisla@kotelettan.is fyrir kl. 20:00 laugardagskvöldið 11. júní.

Fljótlega eftir það verður vinningshafinn heimsóttur af óháðri dómnefnd Kótelettunnar og mun verða leystur út með veglegum vinningum. Það er því ekki eftir neinu að bíða en að bjóða í flottustu grillveisluna 2016 ! Á meðal vinninga í ár eru 10 kassar af Bola, 10 kíló af grillkjöti frá Goða, 10 lítrar af Pepsi, 10 lítrar af 7up og 10 helgarpassar á Kótelettuna árið 2017.

Allar nánari upplýsingar má finna á www.kotelettan.is

Fyrri greinÁtta verðlaun til Selfyssinga
Næsta greinSundhöll Selfoss lokuð vegna viðhalds