Sæmundur gefur Þórunni Elfu út

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi og börn Þórunnar Elfu Magnúsdóttur hafa skrifað undir útgáfusamning um endurútgáfu á bókinni „Líf annarra“ sem skáldkonan sendi frá sér árið 1938.

Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur mun fylgja henni úr hlaði með inngangi um höfundinn og verk hennar.

Þórunn Elfa Magnúsdóttir (1910-1995) sendi frá sér á þriðja tug bóka á árabilinu frá 1933 til 1985. Í skrifum hennar kemur fram hvöss samfélagsgagnrýni og femínismi en í þeim efnum var hún langt á undan sinni samtíð. Bókin Líf annarra fjallar um miskunnarlaus samskipti kvenna í litlu íslensku sjávarplássi, drauma þeirra og áleitna hugsun mannskepnunnar um líf annarra.

Þórunn Elfa var Reykvíkingur, gift Jóni Þórðarsyni kennara. Börn þeirra eru Einar Már Jónsson í París, Magnús Þór Jónsson (Megas) og Anna Margrét Jónsdóttir sem býr í Reykjavík.

Áætlað er að bók Þórunnar komi í verslanir í næsta mánuði.

Fyrri greinSelfyssingar rökuðu inn verðlaunum á lokahófi HSÍ
Næsta greinÞyrlu hlekktist á sunnan við Nesjavelli