Magnús ætlar að kæra framkvæmd kosninganna

Magnús Ingberg Jónsson frá Svínavatni í Grímsnesi hefur ákveðið að kæra framkvæmd kosninga til embættis forseta Íslands. Í gærkvöldi hafði hann ekki náð að safna tilskyldum gögnum vegna framboðsins.

Magnús var tíundi frambjóðandinn til að skila inn gögnum til innanríkisráðuneytisins á tólfta tímanum í gærkvöld, en frestur til þess rann út á miðnætti.

Magnús sagðist í samtali við fréttastofu RÚV í morgun ekki hafa náð að safna tilskildum gögnum. Hann hafi beðið ráðuneytið um frest í gærkvöld vegna þess að kjörstjórnin í Hafnarfirði gat ekki gefið út vottorð.

Þá segir hann að kjörstjórnir hafi brotið á sér í þrígang frá því hann lýsti yfir framboði til forseta Íslands. „Ég á eftir að ráða mér lögmann. Ég held að það sé góð regla að vera ekki að útlista í smáatriðum hver brotin eru fyrr en ég er búinn að ræða við lögmann. Væntanlega verður þessi ákvörðun tekin fljótlega í næstu viku. Að öllu óbreyttu liggur ekki annað fyrir.“

Innanríkisráðuneytið fer nú yfir framboðsgögnin og greinir frá því, ekki síðar en næsta föstudag, hve mörg framboð teljist gild. Kosið verður til forseta 25. júní.

Frétt RÚV

Fyrri greinBúið að opna Fischersetrið
Næsta greinRangæingar fengu skell