„Fólk frá fjarlægjum löndum er geymt í kjallaraholum“

Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina var harðorður í hátíðarræðu sinni á 1. maí hátíðarhöldunum á Selfossi.

„Nemendur eru fengnir erlendis frá til að vinna launalausa sjálfboðavinnu og ekki er hirt um að virða samninga og lögbundin réttindi. Fólk frá fjarlægjum löndum er geymt í kjallaraholum milli þess sem því er pískað út við vinnu á saumastofum. Það keppir enginn við svoleiðis rekstur ef rekstur skyldi kalla. Kannski er nær að tala um það sem plantekrur en hvað sem það heitir, þá á það ekki heima í okkar samfélagi eða atvinnulífi, hvorki hér á Suðurlandi né í öðrum landshlutum“, sagði Hilmar í ræðu sinni.

„Það er dapurlegt staðreynd að mörg hálfgerð aflandsfélög á íslenskum vinnumarkaði eru nú að vinna sum af stærstu verkefnum á okkar byggingamarkaði. Við höfum svo síðustu daga fengið nánari vísbendingar um að þetta aflandseyjasiðferði kennitöluflakkara er því miður líka að finna hjá nokkrum aðilum sem komist hafa til áhrifa í íslenskum stjórnmálum“, sagði Hilmar ennfremur.

Á fimmta hundruð manns tók þátt í kröfugöngu dagsins á Selfossi en gengið var frá húsnæði stéttarfélaganna að Hótel Selfossi þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og kaffiveitingar í boði stéttarfélaganna. Eva Dögg Einarsdóttir landvörður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum flutti einnig ræðu í tilefni dagsins.

Fyrri greinFerðamönnum boðið upp á fjallferðir
Næsta greinVMS vill sameinast VR eða Bárunni