Árni Bragason skipaður landgræðslustjóri

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Árna Bragason í embætti landgræðslustjóra til næstu fimm ára. Árni hefur frá árinu 2010 starfað sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð.

Valnefnd skipuð af ráðherra mat Árna hæfastan meðal umsækjenda til að gegna embætti landgræðslustjóra. Árni lauk doktorsgráðu í jurtaerfðafræði frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn með erfðafræði og lífeðlisfræði sem aukagreinar og B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Árni hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri.

Áður en Árni tók við stöðu forstjóra Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar starfaði hann hjá verkfræðistofunni Eflu. Þar á undan starfaði hann sem forstöðumaður náttúruverndar- og útvistarsviðs Umhverfisstofnunar, forstjóri Náttúruverndar ríkisins og sem forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá.

Að auki hefur Árni gegnt fjölmörgum nefndar- og trúnaðarstörfum á sviði náttúruverndar- og umhverfismála.

Árni er skipaður í embætti landgræðslustjóra frá 1. maí og tekur við starfinu af Sveini Runólfssyni sem lætur af störfum sökum aldurs.

Árni er kvæntur Önnu Vilborgu Einarsdóttur og eiga þau þrjú uppkomin börn.

Fyrri greinÆgir úr leik í bikarnum
Næsta greinKFR áfram í bikarnum