Gríðarleg fjölgun útgefinna leyfa til gististaða

Veruleg aukning hefur verið í umsóknum um leyfi fyrir að selja gistingu á Suðurlandi. Langmest er óskað eftir heimild til að mega leigja út aukaherbergi í skammtímaleigu.

Þá hefur hefðbundnum gistihúsum fjölgað einnig. Á þetta um allar sýslurnar þrjár, Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslur.

Ef marka má þá erlendu bókunarvefi sem teljast til þeirra vinsælustu á þessum vettvangi eru gististaðir í héraðinu ríflega þrjúhundruð talsins. Þannig eru 293 valkostir ef leitað er eftir gistingu á Suðurlandi á vefnum AirBnB, en þar er ekki síst um að ræða gistingu í heimahúsum. Af þessum 293 eru 116 í Rangárvallasýslu, og 88 á Árborgarsvæðinu. Ef vefurinn booking.com er skoðaður, eru 277 gististaðir sem hægt er að velja á milli á Suðurlandi, en á þessum vef er jafnframt hægt að bóka herbergi á hótelum og gistiheimilum.

Frá bílskúrum til glæsisumarhúsa
Meðal þess sem hægt er að leigja á umræddum bókunarvefum eru stök herbergi undir súð inni á heimilum fólks, bílskúrar sem breytt hefur verið í fínar íbúðir með heilu eldhúsi, og upp í glæsilega og íburðarmikla bústaði í uppsveitum Árnessýslu.

Verð er mismunandi eftir staðsetngingu, stærð og tímabili, en nú er hægt að fá gistingu í miðbæ Selfoss á um 6 þúsund krónur nóttin, og sumir bústaðir eru leigðir út á um 70-100 þúsund krónur nóttin.

Fyrri greinUnnur Brá kjörin formaður nefndar um Hoyvíkursamninginn
Næsta greinÞórsarar sigruðu í jöfnum leik