Gengið frá Strandarkirkju að Skálholti í sumar

„Það geta allir verið með, það verður ekkert aldurstakmark og síðan getur fólk komið inn í gönguna hvenær sem er, við verðum ekki stíf á neinum hlut.“

Þetta segir Edda Laufey Pálsdóttir í Þorlákshöfn sem hefur látið hugmynd sína um Pílagrímagöngu á Suðurlandi verða að veruleika.

„Ég gekk Jakobsveginn, þekktustu pílagrímaleið Evrópu árið 2014 og hugsaði þá með mér að við hlytum líka að geta gert þetta heima á Íslandi. Við erum að tala um göngu frá Strandarkirkju í Skálholt í gegnum fimm sveitarfélög, 18 til 22 kílómetra gönguleið hvern dag í nokkra daga í vor og sumar en göngunni lýkur í Skálholti 24. júlí,“ bætir Edda Laufey við.

Hvert sveitarfélag mun sjá um sína gönguleið. Gengið verður 22. maí, 21. júní, 25. júní, 10. júlí og 24. júlí. Fimm manna hópur hefur verið skipaður til að vinna að skipulagningu göngunnar en hann skipa þau Barbara Guðnadóttir fyrir Ölfusið, Bragi Bjarnason fyrir Árborg, Rósa Matthíasdóttir fyrir Flóahrepp, Ásborg Arnþórsdóttir fyrir uppsveitir Árnessýslu og Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis.

„Jú, jú, auðvitað, ég ætla að ganga leiðina og hlakka óskaplega mikið til því ég veit að þetta verður mjög gaman og það eru allir svo ánægðir og taka verkefninu vel,“ bætir Edda Laufey við þegar hún var spurð hvort hún ætlaði ekki að taka þátt í göngunni.

Fyrri greinSlæmt tap gegn Fylki
Næsta greinMálþroski barna eflist markvisst í gegnum leik