Hús Flugbjörgunar-sveitarinnar stækkað

Unnið er að því að stækka húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, en stutt er síðan sveitarfélagið gaf grænt ljós á breytingar á byggingareitnum þar sem núverandi húsnæði stendur.

Ætlunin er að stækka um tvö bil í húsinu, en að sögn Margrétar Ýrr Sigurgeirsdóttur, formanns sveitarinnar, er þörf á að stækka húsið til að koma betur fyrir þeim tækjabúnaði sem sveitin á og hefur til umráða. Þá er orðið þröngt um viðgerðarrými og fleira.

Flugbjörgunarsveitin á Hellu er meðal þeirra björgunarsveita á landinu sem hvað oftast eru kallaðar út, og er það ekki síst vegna nálægðar við hálendi sem er vinsælt til ýmissa ferðalaga og útiveru. Sveitin hefur yfir að ráða fjölbreyttu úrvali af tækjum, til björgunar við ýmsar aðstæður.

„Það er því orðið nauðsynlegt fyrir okkur að stækka húsið,“ segir Margrét í samtali við Sunnlenska. Ákveðið pláss var suður af núverandi húsnæði og því talið upplagt að ráðast í stækkunina.

Margrét segir vissulega kostnaðarsamt að ráðast í slíkar framkvæmdir. „En þetta er unnið í sjálfboðavinnu og við höfum náð að fjármagna ýmislegt í rekstrinum og aflað tekna til að ráðast í verkið,“ segir hún. Eldra húsið segir hún allt hafa verið byggt í sjálfboðavinnu. Sveitin aflar að sögn Margrétar ágætis tekna með því að halda torfærukeppnir á hverju ári, sem hafa verið burðarás fjáröflunarinnar um árabil.

„Það var þó um tíma sem keppnin lá niðri, en nú hefur hún verið endurvakin og það kemur sér vel,“ segir hún.

Margrét Ýrr segir að ætlunin sé að ljúka byggingu hússins fyrir sumarbyrjun. „Það má reikna með að við gefum ærlega í þegar veðrið lagast,“ bætir hún við.

Fyrri greinÞegar kista Páls biskups fannst í Skálholti
Næsta greinHátíð í bæ í kvöld