„Verðum fram undir morgun að slökkva í þessu“

„Aðkoman að þessu var ljót, það var mikill eldur í húsinu og mikill mengaður reykur,“ sagði Pétur Pétursson, aðstoðarslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is á vettvangi brunans í Plastiðjunni í kvöld.

„Þetta var heilmikill eldur enda um að ræða stórt og mikið iðnaðarhúsnæði. Það er mikill lager af plastvörum í húsinu og gríðarlegur eldsmatur auk þess sem það er mikil mengun af reyknum sem leggur yfir íbúðabyggð,“ sagði Pétur og bætti við að menn hafi haft áhyggjur af nærliggjandi húsum í upphafi.

„Þessi mikli eldsmatur er talsvert áhyggjuefni en eins og staðan er núna þá erum við búnir að einangra eldinn. Það lítur þannig út núna að eldurinn komist ekki í nærliggjandi hús en þrátt fyri það verður talsvert mikið tjón af þessum eldi.“

Fimm slökkvistöðvar Brunavarna Árnessýslu voru boðaðar á vettvang og segir Pétur að um sjötíu slökkviliðsmenn séu að störfum.

„Í upphafi lítur þetta ekki alltaf vel út fyrir þá sem eru að horfa á. En eins og við horfum á þetta í upphafi þá eru ákveðnir hlutir sem við munum þurfa að fórna til þess að geta varið aðra hluti og það plan er búið að ganga vel enn sem komið er,“ segir Pétur en hann á ekki von á að slökkvistarfi ljúki fyrr en undir morgun.

„Við verðum langt fram á nótt eða fram undir morgun að slökkva í þessu. Það er heilmikið starf í lokin að slökkva í glæðum og tryggja að verkið sé fullunnið.“

Fyrri greinGríðarlegur eldur á Selfossi
Næsta grein„Rýmingin gekk vel“