Klemmdist á fæti í vinnuslysi

Vinnuslys varð við Hellisheiðarvirkjun síðastliðinn fimmtudag þegar maður klemmdi fót á milli vírs og járnbita með þeim afleiðingum að hann ristarbrotnaði.

Maðurinn var við vinnu sína á jarðbor við Hellisheiðarvirkjun. Verið var að taka vírinn af geymslutromlu borsins þegar atvikið átti sér stað. Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði var kallaður út vegna slyssins.

Fimm manneskjur til viðbótar slösuðust í slysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Meðal annars fékk erlendur ferðamaður grjóthnullung í handlegginn á göngu upp hlíð við Seljalandsfoss, hestamaður féll af baki við Hjálmsstaði í Laugardal og kona meiddist á fæti þegar hún var að fara yfir girðingu á túni í Flóahreppi.

Enginn þessara var talinn alvarlega slasaður, og það átti heldur ekki við í tilviki erlendrar ferðakonu sem féll af reiðhjóli sínu á Suðurlandsvegi, vestan Víkur á laugardag.

Fyrri greinMeð 11 ára barn í skottinu
Næsta greinFerðamaður staðinn að þjófnaði á Geysi