Góð veiði þrátt fyrir kulda

Eftir fyrstu tvær vikurnar eru komnir 4.183 fiskar á land í Veiðivötnum. Það má teljast mjög gott því færð var erfið í fyrstu vikunni og nokkur vötn ísilögð.

Nú eru öll vötn íslaus og vatnshitinn hækkar hægt og rólega. Í annarri viku veiddust 2.406 fiskar, 1.388 bleikjur og 1.018 urriðar. Flestir fiskar veiddust í Snjóölduvatni í 2. viku, 652 fiskar en Litlisjór kom þar skammt á eftir með 607 fiska. Litlisjór var óveiðanlegur í fyrstu vikunni en er núna óðum að komast í gang.

Stærsti fiskur sumarsins er 8,2 pund úr Stóra-Skálavatni og mesta meðalþyngdin er 4,73 pund í Ónefndavatni.

Flestir vegir á svæðinu eru þurrir og vel færir en brekkan við Eskivatn er ófær. Ófært er í Krókspoll og í Skyggnisvatn. Talsvert vatn er í ám á svæðinu en vel fært fyrir litla jepplinga. Leiðbeiningaskilti beina umferð frá ófærum slóðum.

Veiðiverðir hvetja veiðimenn til þess að virða reglur um utanvegaakstur, halda sig við færa vegarslóða, og ganga að vötnunum frekar en að reyna að aka ófæra vegi.

Fyrri greinBúið að opna Landmannaleið
Næsta greinFjölmenni í frjálsíþróttaskólanum