Hlíf orðin 106 ára

Hlíf Böðvarsdóttir frá Laugarvatni er 106 ára í dag, 11. apríl. Að sögn dóttursonar Hlífar er hún mjög hress, að vísu farin að missa heyrn en er að öðru leyti hraust og skýr í hugsun.

Greint er frá þessu á Facebooksíðu Langlífis. Hlíf er búsett í Reykjavík, en hún er í þriðji elsti Íslendingurinn.

Foreldrar hennar voru Böðvar Magnússon hreppstjóri á Laugarvatni og Ingunn Eyjólfsdóttir. Systkini Hlífar voru tólf. Ragnheiður varð 100 ára, Lára 96 ára, Arnheiður 95 ára og Svanlaug 93 ára. Móðir þeirra varð 95 ára og föðursystir 102 ára. Maður Hlífar var Guðmundur Gíslason skólastjóri á Reykjum í Hrútafirði. Sæmundur bróðir hans varð 100 ára.

Þegar Hlíf var 103 ára skrifaði hún minningargrein um 101 árs vinkonu sína. Ekki eru mörg ár síðan hún var að prjóna og seldi í Kolaportinu. Hún var á framboðslista fyrir síðustu alþingiskosningar (var einnig á framboðslista 1971). Í fjölmiðlum hefur verið rætt við Hlíf m.a. um jólahald fyrir einni öld, frostaveturinn 1918, konungskomuna 1921 og hernámið 1940.

Fyrri greinHengill áfram í kjallara íþróttahússins
Næsta greinNafn mannsins sem lést