„Þetta verður einn af aðal áfangastöðunum á Íslandi“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, opnaði í dag sýningu á uppdráttum og teikningum af nýjum miðbæ á Selfossi í Tryggvaskála. Hann segir að verkefnið muni skipta gríðarlega miklu máli fyrir sveitarfélagið.

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt vilyrði fyrir úthlutun miðbæjarsvæðisins á Selfossi til Sigtúns þróunarfélags ehf um uppbyggingu alhliða miðbæjarstarfsemi og ferðaþjónustu.

Við opnunina í dag sagði forsætisráðherra meðal annars að verkefnið sem hér væri verið að kynna væri þess eðlis að það þyrfti að óska öllum Íslendingum til hamingju með það, en ekki bara Selfyssingum og Árborgarbúum.

„Það er gríðarlega skemmtilegt að sjá þetta fara af stað og þetta verkefni mun skipta miklu máli fyrir sveitarfélagið. Miðbærinn mun hafa aðdráttarafl fyrir fólk og það sem hefur aðdráttarafl fyrir fólk hefur líka aðdráttarafl fyrir fyrirtæki og fjárfestingar,“ sagði Sigmundur meðal annars.

„Þetta mun svo sannarlega tryggja ímynd Selfoss og Árborgar því þetta mun mynda skemmtilegan þríhyrning með gömlu þorpunum á Eyrarbakka og Stokkseyri og efla þá byggð. Árborg mun komast rækilega á kortið með þessu því það verður hæpið að ætla að ferðast um Ísland án þess að ætla að koma hingað. Þetta verður einn af aðal áfangastöðunum á Íslandi nái þessi áform fram að ganga,“ sagði forsætisráðherra ennfremur.

Miðað er við að byggð í miðbænum verði lágreist en þétt, í samræmi við þá húsagerð sem er að finna í götum kringum miðbæjarsvæðið. Öll húsin sem reist verða, um 25 hús, munu eiga sér sögulegar fyrirmyndir – eru horfin hús með sögu sem er táknræn fyrir tiltekið tímabil, atvinnuhætti, listir, mat og menningu í Árborg, á Suðurlandi og jafnvel víðar.

Vilyrði bæjaráðsins fyrir úthlutun svæðisins er til sex mánaða og á þeim tíma verður unnið að frekari þróun hugmyndanna, deiliskipulagi og fjármögnun. Miðað er við að öllum framkvæmdum verði lokið vorið 2017.

Fjárfestar og aðrir áhugamenn standa að baki þróunarfélaginu undir forystu Selfyssinganna Leós Árnasonar og Guðjóns Arngrímssonar. Hönnun annast Batteríið Arktektar og Snorri Freyr Hilmarsson hönnuður og formaður Torfusamtakanna. Verkfræðiráðgjöf og verkefnisstjórn er í höndum VSÓ Ráðgjafar.

Opið hús verður í Tryggvaskála á Selfossi á morgun, laugardaginn 21. mars frá kl 11:00-17:00. Þar liggja frammi uppdrættir og teikningar og gefst bæjarbúum og öðrum áhugasömum kostur á að ræða við forsvarsmenn verkefnisins og kynna sér hugmyndirnar nánar.

Sjá einnig www.midbaerselfoss.is

TENGDAR FRÉTTIR:
Ný heildarsýn á miðbæ Selfoss

Fyrri greinEitt – núll Tindastóll
Næsta greinHamar og FSu fengu heimaleikjarétt