Hvergerðingar ánægðir með bæinn sinn

Íbúar Hveragerðisbæjar eru í hópi ánægðustu íbúa landsins hvað varðar alla þjónustuþætti sem spurt var um í þjónustukönnun Capacent.

Capacent gerði könnun til að kanna ánægju íbúa með þjónustu í nítján stærstu sveitarfélögum landsins þann 21. október – 17. desember 2014. Meðal annars var spurt hversu ánægt eða óánægt fólk væri með þjónustu sveitarfélagsins í heild sinni. Þar fékk Hveragerði 4,0 í einkunn og er í 4. sæti en íbúar Árborgar gefa sveitarfélagi sínu 3,6 í einkunn og standa fjórtán sveitarfélög þeim framar.

Í bókun á bæjarstjórnarfundi segist bæjarstjórn Hveragerðis afar ánægð með niðurstöður könnunarinnar sem sýnir að 90% íbúa er ánægður með Hveragerði sem stað til að búa á. Ánægja íbúa í öllum þeim þjónustuþáttum sem spurt var um var ríflega yfir meðaltali í öllum tilfellum og ítrekað lendir Hveragerðisbær í hópi efstu sveitarfélaga í könnuninni.

„Það er mikils virði og góð kynning fyrir bæjarfélagið að íbúar séu ánægðir með þá þjónustu sem veitt er. Það er ljóst að starfsmenn og stjórnendur hjá Hveragerðisbæ eru að vinna afar gott starf og fyrir það þakkar bæjarstjórn af heilum hug.“

Fyrri greinArnar Bjarki rétt marði Bjarna
Næsta greinMargrét Ýrr endurkjörin formaður