Tólf verkefni hlutu 36,5 milljónir

Alls fengust 36,3 milljónir króna á Suðurland í styrkveitingu úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða en úthlutun úr sjóðnum fór fram í síðustu viku.

Alls hlutu tólf sunnlensk verkefni styrk, allt frá einni til átta milljóna króna hver. Hæsti styrkurinn er átta milljónir og er það sveitarfélagið Ölfus sem hlýtur hann. Er það styrkur til framkvæmda í Reykjadal í Ölfusi, svo sem við hönnun aðstöðu við heita lækinn, gerð göngustíga og aðgerðir til að tryggja öryggi ferðmanna. Markmið styrkveitingar er að styðja við sjálfbæra uppbyggingu, náttúruvernd og aðgerðir sem auka öryggi ferðamanna. Verkefnið hefur verið í gangi í um fjögur ár og talsverð breyting átt sér stað hvað varðar aðstöðu ferðamanna. Er um að ræða samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Ölfuss, Hveragerðisbæjar, Garðyrkjuskólans að Reykjum sem er landeigandi, og Eldhesta sem er leiðandi í ferðaþjónustu á svæðinu.

Næst hæsti styrkurinn hljóðar upp á fimm milljónir króna, og hlaut Umhverfisstofnun tvo slíka styrki, annars vegar fimm milljónir til að byggja nýjan stiga við Gullfoss, og aðrar fimm milljónir í útsýnispall við fossinn. Þá hlaut Umhverfisstofnun einnig tvær milljónir króna til að bæta merkingar og stýringu á Laugaveginum svokallaða innan Friðlands að fjallabaki.

Vinir Þórsmerkur hlutu fjórar milljónir króna til uppbyggingar og viðhalds gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu. Minjastofnun fær 2,5 milljónir í styrk til að byggja upp göngustíga við Stöng í Þjórsárdal. Kerlingafjallavinir fá tæpar tvær milljóir til göngustígagerðar í Kerlingafjöllum.

Sveitarfélagið Árborg fékk rúmar tvær milljónir króna til endurbóta á Knarrarósvita og endurnýjun göngustígs við vitann. Þá komu tæpar 2,4 milljónir króna í hlut Rangárþings eystra, annarsvegar til stíga og tröppugerðar við Hamragarða, og hinsvegar til verkefna við númerun og hnitsetninga á stikum á Fimmvörðuhálsi. Loks hlaut Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni eina milljón króna til að deiliskipuleggja um 40 ha svæði við útilífsmiðstöðina.

Fyrri greinSúperbrauð
Næsta greinMiðaði skammbyssu á vegfarendur