Kjötmjölið enn í þrot

Óskað hefur verið eftir heimild til greiðslustöðvunar Orkugerðarinnar ehf, sem rekur kjötmjölsverkmiðjuna í Heiðargerði í Flóahreppi. Félagið hefur átt í talsverðum rekstrarvanda í langan tíma.

Kemur það til vegna þess að erfitt hefur verið að fá hráefni til vinnslu, en félaginu hafa verið settar skorður á hverskonar hráefni það má taka á móti. Þá hefur einnig verið takmarkað hvað félagið má gera við afurðina sem það framleiðir úr úrganginum sem þangað kemur.

Í verksmiðjunni fer fram vinnsla á úrgangi úr sláturhúsum og öðru og ljóst er að finna verður lausn á þeim vanda sem upp kemur ef rekstur stöðvast að fullu. Málið hefur verið til umfjöllunar hjá Sorpstöð Suðurlands, en stjórn þess félags hyggst ræða við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem og umhverfisráðherra um stöðu mála varðandi meðhöndlun sláturúrgangs. Snýst það um takmarkanir á því hvað má taka inn og hvað má gera við afurðina.

Stærstu eigendur verksmiðjunnar eru Sláturfélag Suðurlands, Sorpstöð Suðurland og Sláturhúsið á Hellu. Sveitarfélögin hafa ákveðið að leggja félaginu ekki til meiri fjármuni.

Gjaldskrá á sláturleyfishafa hefur verið hækkuð en tekjur fyrirtækisins eru engu að síður ekki taldar nægilega miklar til að standa undir rekstrinum. Sem stendur er þess beðið hvað kemur út úr greiðslustöðvun og þá mögulegum nauðasamningum. Ef allt fer á versta veg er álitið að vinnsla leggist þar af og starfsemi verði hætt.

Fyrri greinSkoða vindmyllur í útlöndum
Næsta greinSúperbrauð