Fundað með ráðherra vegna fækkunar rýma

Full ástæða er að hafa áhyggjur af mögulegu framhaldi á fækkun rýma á Kumbaravogi að mati Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar.

Bæjarráð hefur óskað eftir fundum með heilbrigðisráðherra og forsvarsmönnum stofnunarinnar um þróun mála, en á fáeinum árum hefur hjúkrunar- og dvalarrýmum fækkað nokkuð á Kumbaravogi. Einhver slík rými voru færð á Eyrarbakka og önnur í Rangárvallasýsluna. Ástæðan er tvíþætt, annarsvegar hefur áherslan lögð á einstaklingsherbergi hvað aðstöðu varðar og á Kumbaravogi hefur verið nokkuð um 2 til 4 manna herbergi. Þá hefur skort á viðhald og frekari uppbyggingu þar líkt og úttektir hafa bent til.

Í skýrslu Landlæknisembættisins sem gerð var í kjölfar úttektar á Kumbaravogi í september 2012 er tilgreint það mat embættis landlæknis að Kumbaravogur sé allsendis ófullnægjandi húsnæði fyrir hjúkrunarheimili. Er þar lögð þung áhersla á að sem allra fyrst verði leitað leiða til að leysa þann vanda. Er þar einkum minnst á aðbúnað og öryggi íbúa hvað húsnæðið varðar.

„Kumbaravogur er einkafyrirtæki og ekki tengt sveitarfélaginu. Á nokkrum stöðum á landinu reka sveitarfélög hjúkrunarheimili eða koma að sjálfseignarstofnunum sem eru í slíkum rekstri. Svo er ekki hér, en bæjaryfirvöld vilja fylgjast með, enda er ljóst að það er mikil þörf fyrir hjúkrunarrými á þessu svæði. Þarna er líka mest megnis um að ræða íbúa sveitarfélagsins auk þess sem hér er um stóran vinnustað hér á þessu svæði,“ segir Ásta.

Fyrri greinByggt við Sunnulækjarskóla fyrir 380 milljónir króna
Næsta grein27 sóttu um mannauðsstjórastarf