Sjö á sjúkrahús í tveimur hörðum árekstrum

Tveir harðir árekstrar urðu í umdæmi lögreglunnar á Selfossi sitthvoru megin við hádegið í dag. Krapi og hálka er á vegum á Suðurlandi og akstursskilyrði víða slæm.

Laust fyrir hádegi lentu þrír bílar í árekstri í Smiðjulaut á Hellisheiði. Jeppabifreið lenti þar á tveimur fólksbifreiðum sem komu úr gagnstæðri átt. Samkvæmt fyrstu upplýsingum frá lögreglu var einn fluttur mikið slasaður á sjúkrahús í Reykjavík og þrír aðrir minna slasaðir.

Um klukkan hálftvö varð svo annar árekstur á Suðurlandsvegi við Bitru. Þar lenti sendiferðabíll sem var á leið vestur framan á jepplingi sem kom á móti. Tvennt var í jepplingnum og var ökumaður fluttur á slysadeild í Fossvogi en farþegi og ökumaður sendibílsins á heilsugæsluna á Selfossi.

Akstursskilyrði voru slæm í báðum tilvikum, krapi og hálka á veginum.

Fyrri greinEinn sendur akút á sjúkrahús
Næsta greinNemendur fá skólagjöld endurgreidd