Öldungaráð sett á fót í Hveragerði

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur samþykkt að skipa öldungaráð í bæjarfélaginu sem mun vinna að málefnum aldraðra í Hveragerði samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

Meginmarkmið með öldungaráði er að Félag eldri borgara í sveitarfélaginu hafi formlegan og milliliðalausan viðræðuvettvang við sveitastjórnarmenn um hagsmunamál sín.

Í öldungaráði eru rædd öll atriði sem varða hagsmuni eldri borgara í sveitafélaginu svo sem þjónusta sveitarfélagsins við eldri borgara, aðstaða félags eldri borgara og fjárhagsáætlun hvers árs hvað félag eldri borgara varðar.

Í samþykktunum kemur einnig fram að öldungaráð sé ekki framkvæmdaaðili, heldur beitir það sér fyrir að mál sem tekin eru fyrir hjá ráðinu séu framkvæmd af hálfu bæjarins.

Félag eldri borgara í Hveragerði mun tilnefna þrjá fulltrúa í ráðið en fyrir liggur að það verða þær Hrafnhildur Björnsdóttir, Kristín Dagbjartsdóttir og Guðlaug Birgisdóttir.

Bæjarstjórn hefur þegar skipað sína tvö fulltrúa þá Örn Guðmundsson og Gísla Garðarson.

UPPFÆRT 24.11.2014 KL. 15:51

Fyrri greinNýtt merki fyrir HSu
Næsta greinGaf tuttugu miða í Sjóðinn góða