„Þetta hefur safnast í kollinum á mér“

„Mér fannst ég verða að koma þessu á prent,“ segir Jóhannes Sigmundsson, ferðaþjónustubóndi og kennari frá Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, sem varð 83 ára í gær, 18. nóvember.

Jóhannes hefur nú í fáein ár skrifað hjá sér margar af þeim sögum sem hann hefur heyrt af Árnesingum í gegnum árin. Fyrr í haust kom svo út bók með þessum sögum, og ber hún einfaldlega nafnið Gamansögur úr Árnesþingi. Í bókinni er að finna ótal margar gamansögur, svo sem af óborganlegum Hreppamönnum, spekingslegum Laugvetningum, tannhvössum vinnukonum og mishittnum stjórnmálaskörungum.

Rifjar Jóhannes upp orð og atvik úr lífi fólks í sveitum og bæjum Árnessýslu á borð við Brynjólf Melsteð, Sigurð Greipsson, Imbu Sveins, Sigurð í Hvítárholti, sr. Sveinbjörn í Hruna, Böðvar Magnússon á Laugarvatni og marga fleiri.

Margar sögurnar eru af vöskum köppum sem fallnir eru frá, en þarna er einnig að finna sögur af yngri kynslóðinni. „Þetta hefur safnast í kollinum á mér og margir verið að ýta að mér ýmsum ágætum sögum, sem þarna koma svo fram,“ segir Jóhannes. Hann segist ekki geta valið eina sögu umfram aðra til að segja fréttamanni, og vissulega séu enn til fjölmargar sögur og sagnir sem ekki komust í bókina nú, „…hvað sem svo verður í annarri útgáfunni,“ segir Jóhannes.

„Hún hefur selst prýðilega, ég held ég sé til dæmis búinn að selja ein sjötíu eintök uppi í Hrepp,“ segir bókarhöfundurinn. „Sumir eru að kaupa nokkur eintök til að gefa í jólagjöf,“ bætir hann við.

Gamansögurnar eru fyrsta bók Jóhannesar Sigmundssonar sem er landskunnur fyrir félagsmálastörf og forystu í ferðaþjónustu. Bókin er 132 síður og útgefandi er Bókasmiðjan Selfoss.

Fyrsta upplestrarkvöld haustsins í Bókakaffinu á Selfossi verður fimmtudagskvöldið 20. nóvember og þar verður Jóhannes meðal rithöfunda sem lesa úr bókum sínum. Húsið opnar kl. 20 en lestur hefst hálftíma síðar. Auk Jóhannesar koma fram Matthías Johannessen, Steinunn Jóhannesdóttir, Snorri Páll Úlfhildarson, Heiðrún Ólafsdóttir og Hrefna Clausen sem kynnir nýja bók Steinunnar Sigurðardóttur.

Fyrri greinHundrað manns mættu á málþing um Múlakot
Næsta greinHamar tapaði heima