Gáfu sjúkraflutningum nýtt hjartahnoðtæki

Á dögunum fengu sjúkraflutningamenn á Selfossi afhent formlega, Lucas sjálfvirkt hnoðtækitæki. Tækið er gjöf frá sex Lionsklúbbum á Suðurlandi og er andvirði þess tæplega 2,5 milljónir króna.

Gefendur eru Lionsklúbburinn Embla á Selfossi, Lionsklúbbur Selfoss, Lionsklúbburinn Geysir í uppsveitum Árnessýslu, Lionsklúbburinn Eden í Hveragerði, Lionsklúbburinn í Laugardal og Lionsklúbburinn Skjaldbreiður í Grímsnesi.

Það hefur lengi verið draumur sjúkraflutningsmanna að eignast svona tæki, enda gefur það mikið öryggisgildi við fyrstu hjálp. Tækið kemur sér vel í aðstæðum þar sem hnoða þarf sjúkling t.d. eftir hjartastopp. Það viðheldur fullkomnu og stöðugu hnoði í langan tíma, svo lengi sem það hefur rafmagn. Tækið spennist utan um sjúklinginn og hnoðar hann með tjakki sem gengur niður á brjóstið og veitir þannig jafnt og stöðugt hjartahnoð sem getur aukið lífslíkur sjúklings og hefur nú þegar sannað gildi sitt.

Félögum Lionsklúbbana var boðið í þakkarhóf á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem útlistað var mikilvægi þess að hafa aðgang að slíku tæki og tækið sýnt. Forsvarsmenn klúbbana fengu einnig afhent þakkarbréf og farið yfir hversu ómetanlegur stuðningur þeirra er og hvað það er mikilvægt fyrir stofnun eins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands að eiga svona góða bakhjarla.

Fyrri greinFyrsti sigur Hamars
Næsta greinSéra Þorvaldur Karl í Selfosskirkju