Meta umhverfisáhrif vegna framkvæmda á Sprengisandi

Landsnet hefur ákveðið að hefja undirbúning mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu, 220 kV háspennulínu milli Suður- og Norðurlands. Samhliða vinnur Vegagerðin að umhverfismati nýrrar hálendisleiðar yfir Sprengisand.

Mati Landsnets er ætlað að kanna nánar umhverfisáhrif Sprengisandslínu og leggja mat á kosti um leiðarval og útfærslur. Drög að tillögu að matsáætlun hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Landsnets og er athugasemdafrestur til 20. nóvember næstkomandi. Áhersla er lögð á að Sprengisandslína verði sem minnst sýnileg frá væntanlegri Sprengisandsleið.

Um er að ræða nýja 220 kV háspennulínu, frá tengistað við Langöldu á Landmannaafrétti að áætluðu tengivirki við Eyjadalsá vestan Bárðardals, og er heildarlengd hennar um 195 km.

Framkvæmdin við Sprengisandsveg felur í sér nýjan og endurbyggðan veg frá Sultartangalóni að Mýri í Bárðardal. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er í þremur sveitarfélögum: Rangárþingi ytra, Ásahreppi og Þingeyjarsveit. Núverandi vegur er 219 km langur sumarvegur og er á köflum aðeins niðurgrafinn slóði með óbrúuðum ám. Hann liggur hátt yfir sjó, eða mest í um 800 m hæð.

Nýr vegur verður 187-197 km langur -háð leiðarvali, 8 m breiður og nokkuð uppbyggður vegur með bundnu slitlagi og brúuðum ám. Hönnunarhraði verður á bilinu (50) 70-90 km/klst og háður landslagi þar sem við á. Áætlanir eru um að meta umhverfisáhrif tveggja leiða.

Drögin að tillögunni er að finna á heimasíðu Vegagerðarinnar. Frestur til að gera athugasemdir er til 20. nóvember og geta allir gert athugasemdir.

Vegagerðin og Landsnet standa sameiginlega að opnu húsi um matsáætlanirnar miðvikudaginn 5. nóvember hjá Steinsholti sf., Suðurlandsvegi 1-3, Hellu kl. 16:00-20:00. Þar verða drög að tillögu að matsáætlun beggja verkefna kynnt með útprentuðum gögnum og upplýsingum á skjá og eru allir velkomnir. Fulltrúar frá Landsneti, Vegagerðinni og ráðgjöfum verða á staðnum til að svara fyrirspurnum og ræða við gesti.

Fyrri greinGlæsileg afmælishátíð Sleipnis
Næsta greinGöngustígur að Svartafossi endurbættur