Viðbúnaður vegna mögulegrar loftmengunar

Í morgun funduðu Almannavarnir með fulltrúm fjölmargra sveitarfélaga á landinu þar sem fjallað var um loftgæði á þeim stöðum sem mögulega gæti blásið af eldgosinu.

Samkvæmt veðurspám er möguleiki á því að það geti blásið í efstu byggir Ásahrepps og Rangárþings ytra nú næstu daga.

Í frétt á heimasíðu Ásahrepps segir að mikilvægt sé að fylgjast vel með spám um loftgæði vegna eldsumbrotanna í Holuhrauni en þær fylgja með spám Veðurstofunnar. Þá er fólk hvatt til að fara inn á almannavarnir.is þar sem greint er frá stöðu á loftgæðum á hverjum stað. Þá verður fylgst vel með þróun mála á heimasíðu Ásahrepps og birtar upplýsingar þar og á Facebook síðu hreppsins ef þurfa þykir.

Engin ástæða er til að óttast en mikilvægt að fylgjast vel með gangi mála, komi til þess að loftgæði versni á svæðinu vegna hræringanna.

Nokkrir sjálfvirkir, nettengdir mælar fylgjast með breytingum á loftgæðum og er ætlunin að fjölga þeim og setja að auki upp 20 grófmæla hringinn í kringum landið sem viðbót við þá sjálfvirku, en þeim mælum þarf að lesa af og fylgjast með.

Vandlega er fylgst með þróun mála hjá almannavörnum og munu sveitarstjórnirnar framvegis funda með almannavörnum a.m.k. tvisvar í viku og oftar ef þurfa þykir á meðan eldsumbrot standa yfir.

Fyrri greinLöggan sinnir eftirliti hjólandi
Næsta greinRíkið tryggi Háskólafélaginu og Fræðslunetinu nægt fjármagn