Sigdældir suðaustan við Bárðarbungu

Vísindamenn urðu varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli í vísindamannaflugi með TF-SIF yfir jökulinn í dag. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna. daga.

Markmiðið með ferðinni var að greina frekar svæðið þar sem jarðskjálftahrinan hefur verið undanfarna daga. Í fluginu sáust grunnir sigkatlar og sprungur 4 – 6 km langar við suðaustanverða Bárðarbungu. Þarna er um 400 til 600 metra þykkur ís.

Ljóst er að sigkatlarnir hafa myndast eftir að flogið var þarna yfir á laugardag. Katlarnir eru ekki á þekktu sprungusvæði við Bárðarbungu og ekki er talið að þeir séu tengdir bergganginum sem verið hefur að myndast undanfarna daga. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna. Um 30 milljónir rúmmetrar af vatni hafa ekki komið fram.

Ekki hefur enn mælst breyting í rennsli Jökulsár og rennsli hennar eðlilegt miðað við árstíma. Merki er um að vatnsborð í Grímsvötnum hafi hækkað síðustu daga en óljóst hvort að það er tengt sigdældunum.

Áætlað er að fljúga með TF- SIF aftur yfir svæðið í fyrramálið klukkan 09.00. Vænta má frétta af fluginu upp úr klukkan 11:00.

Ekki hafa mælst teljandi skjálftar á þessu svæði og enginn órói er á jarðskjálftamælum. Sigdældir af þessu tagi myndast við eldgos eða jarðhitavirkni undir jökli. Töluverð óvissa er um atburðarás.

Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð vegna þessara atburða og meðal annars haft samband við lögregluna á Hvolsvelli og hún upplýst um stöðuna.

UPPFÆRT Kl. 00:50

Fyrri greinTruflun á heitavatnsþrýstingi
Næsta greinAusturvegurinn malbikaður í dag