Allir hættir lundaveiði að eigin frumkvæði í Mýrdalnum

„Þar sem ég er áhugamaður um fugla og fuglaljósmyndun finnst mér hörmulegt að fylgjast með hvernig lunda og kríu, sem hér voru áður í þúsundatali, fækkar stöðugt.“

Þetta segir Þórir N. Kjartansson í Vík í Mýrdal og tekur heilshugar undir þá skoðun Jóhanns Óla Hilmarsson, formanns Fuglaverndarfélags Íslands, sem hann lýsti yfir í fjölmiðlum nýverið að hætta ætti allri veiði á lunda og svartfugli í landinu í nokkur ár.

„Allir sem veiddu lunda hér í Mýrdal eru hættir því að eigin frumkvæði. Þeim fannst ekki réttlætanlegt að halda því áfram eins og staðan er. Ekkert yfirvald þurfti að segja þeim það. Hitt er svo annað mál að það hefur litla þýðingu að friða fugl sem hefur ekkert að éta, nema að ástandið batni verulega á allra næstu árum. Það sem ég hef mest undrast í allri þessari umræðu um vandræði sjófugla er að fæstir velta því fyrir sér hvers vegna svona er komið fyrir sandsílastofninum,“ segir Þórir.

Krían bjó við velsæld fyrstu tuttugu árin
Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, hefur verið með ýmsar kenningar um fæðuskort hjá fuglunum og sú nýjasta er að hlýnun sjávar sé um að kenna. „Það þykir mér ekki trúleg saga þar sem Norðursjórinn, sem venjulega er hlýrri en sjórinn hér, er og var þó sérstaklega áður fyrr pakkaður af sandsíli,“ segir Þórir og bætir við.

„Einnig sýna þær fátæklegu tölur sem til eru um sjávarhita hér við suðurströndina að hann er sáralítið ef nokkuð hærri nú en hann var í lok hlýindaáranna 1930-60. Í lok þess tímabils var hér greinilega allt yfirfullt af sandsíli því lundinn var hér þá í Reynisfjalli og Víkurhömrum örugglega talinn í hundruðum þúsunda og lundapysjur flæktust hér um allt þorp síðsumars. Rétt seinna eða um 1970 fór krían að nema land hér austast í þorpinu og greinilegt var að hún bjó við mikla velsæld fyrstu tuttugu árin, eða svo,“ segir Þórir.

„En þá fórum við hér sem best fylgdumst með fuglinum að sjá breytingu til hins verra. Það er nefnilega mun lengra síðan að þessi þróun byrjaði en flestir halda. Það hef ég sagt mörgum, sem kenna makrílnum um hvernig komið er. Þessari skoðun deili ég með ekki ómerkari manni en Óskari Sigurðssyni fyrrverandi vitaverði á Stórhöfða sem fór að taka eftir þessu sama í Eyjum“.

Inngrip mannsins í náttúruna
Þórir segir að þar sem honum hafa ekki þótt trúverðugar þær örfáu kenningar sem menn hafa verið að velta upp í sambandi við þetta þá hafi hann mikið velt því fyrir sér hvort inngripi mannsins í náttúruna sé kannski um að kenna.

„Þar á ég við þær gríðarlegu loðnuveiðar, sem í marga áratugi hafa verið stundaðar við landið. Loðnan er óumdeilanlega ein mikilvægasta fæða þorsks og annarra bolfiska. Sé hún að verulegu leyti frá honum tekin hlýtur hann að leita í það sem næst best er og þá hlýtur sandsílið að vera þar ofarlega á blaði. Á þetta heyri ég aldrei minnst í þessari umræðu, enda trúlega viðkvæmt mál vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem liggja í veiðum á uppsjávarfiski.

Ég er þó alls ekki einn um þessa skoðun og hef rætt þetta við ófáa fyrrverandi sjómenn af fiskiskipaflotanum og lang flestir eru þessu sammála. Margir af þeim hafa líka megnustu andúð á flottrollunum, sem þeir segja drepa eins mikið eins og þau veiða,“ segir Þórir.

Fyrri greinVeitir ekki af stærri sal
Næsta greinHlaupaleiðirnar færðar inn í Selfossbæ