Mikil sala á íslensku skyri til útlanda

„Það er brjálað að gera í skyrsölunni en við reiknum með að það verði seldar um sextíu milljónir dósa af skyri á Norðurlöndunum á þessu ári.

Til samanburðar er salan á íslenska markaðnum um átta milljónir dósa á ári. Um 1/3 af því fer í gegnum Mjólkursamsöluna og eru tekjur af því um 1.800 milljónir.

Síðan eru 2/3 af þessum sextíu milljónum dósa seldir með leyfissamningum þar sem skyrið er framleitt hjá leyfishafa undir eftirliti Mjólkursamsölunnar,“ segir Aðalsteinn H. Magnússon, sölustjóri MS þegar hann var spurður út í ævintýralega skyrsölu ársins 2014.

Hann segir að skyrið fari frá Íslandi til Færeyja, Grænlands, Sviss og Finnlands, auk þess sem lítill hluti fer á Bandaríkjamarkað.

„Fram til þessa hafa bændur náð að framleiða næga mjólk og er unnið með öllum tiltækum ráðum að auka framleiðsluna,“ bætir Aðalsteinn við en skyrið er framleitt í mjólkurbúinu á Selfossi.

Fyrri greinÞriðja vika Kiriyama Family á toppnum
Næsta greinSlösuð göngukona sótt í Almenninga