Ferðafólk hætt komið í Steinholtsá

Á tíunda tímanum í morgun var tilkynnt um rútu sem sat föst í Steinholtsá á Þórsmerkurleið. Fimmtán farþegar voru í rútunni og var dautt á henni, farið að flæða inn auk þess sem áin gróf hratt undan henni.

Björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og Landeyjum voru kallaðar út auk þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Landverðir í Básum voru fyrstir á vettvang á traktor og tókst þeim að ná fólkinu úr rútunni og rútunni úr ánni rétt í þann mund er björgunarsveitir komu á staðinn um hálfri klukkustund eftir að aðstoðarbeiðni barst. Engin slys urðu á fólki.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að nokkuð mikið sé í ám og lækjum á svæðinu þessa dagana og er ferðafólk hvatt til að gæta ítrustu varúðar þegar þvera þarf straumvatn.

Fyrri grein„Ég er ekki vítaspyrnusérfræðingur“
Næsta greinHafdís Huld á Halldórskaffi í kvöld