„Sterkasta landsmót sem haldið hefur verið“

Landsmót hestamanna hefst á Gaddstaðaflötum við Hellu sunnudaginn 29. júní næstkomandi. Slík er þátttakan í kynbótasýningunum að mótið byrjar degi fyrr en áætlað var.

„Það er svo ofboðslegur fjöldi í kynbótasýningunum að við munum byrja einum degi fyrr, á sunnudeginum,“ segir Axel Ómarsson, framkvæmdastjóri landsmótsins, í samtali við sunnlenska.is.

„Ég get fullyrt það að þetta er sterkasta landsmót sem haldið hefur verið, hvað styrkleika hesta varðar. Við fáum alla sterkustu töltara og skeiðhesta landsins og A-flokkurinn er sá sterkasti sem menn hafa séð. Það er í raun þvílíkur hestakostur í öllum flokkum. Svo mæta einhver hæst dæmdu kynbótahross sem menn hafa séð, þannig að hestalega séð verður mótið frábært,“ segir Axel.

Úrslit í tölti og keppni í A-flokki gæðinga eru jafnan ákveðinn hápunktur á landsmótunum og að þessu sinni verða báðir þessir viðburðir á laugardagskvöldinu, samhliða kvöldvöku og glæsilegri skemmtidagskrá.

Hreimur stýrir skemmtidagskránni
Landsmót hestamanna er samt miklu meira en bara hestamannamót. Glæsileg hliðardagskrá verður á svæðinu bæði fyrir börn og fullorðna, t.d. verður sérstakur barnagarður með fjölbreyttri afþreyingu fyrir krakka. Tónlistardagskráin er vegleg en Rangæingurinn Hreimur Örn Heimisson er skemmtanastjóri mótsins. Meðal þeirra sem stíga á stokk eru Gunni og Hebbi úr Skímó, Sverrir Bergmann, Hreimur og Made in sveitin, Sniglabandið og Eyþór Ingi, sem mun syngja Queen-lög á laugardagskvöldinu.

Axel segir svæðið á Gaddstaðaflötum henta vel til mótahaldsins. „Það sem er gott við þetta svæði er þessi hryggur sem er hérna á milli vallanna. Hér geta menn labbað á milli og fylgst með gæðingakeppni öðru megin og kynbótasýningum hinu megin. Þetta er ekki í boði allstaðar. Undanfarnar vikur er búið að vinna í rafmagnslögnum og ljósleiðurum, bera í vellina og snyrta umhverfið en við komum síðan í raun með með okkur. Hér verða reistar stúkur, tjöld og mikið af tæknibúnaði. Hér verða tvö 1.200 fermetra tjöld, annað er markaðstjald þar sem menn eru að selja og kynna vörur sínar og hitt er veitingatjald þar sem átta aðilar munu bjóða fjölbreyttar og glæsilegar veitingar,“ segir Axel ennfremur.

Misskilningur að mótið sé bara fyrir hestafólk
Síðasta landsmót á Hellu var árið 2008 og þá sóttu um fjórtján þúsund manns mótið. Axel segist vona að í ár verði gestirnir einhversstaðar á milli tíu og fimmtán þúsund, en það fari auðvitað allt eftir veðri.

„Það kemur vel á annað þúsund manns erlendis frá á mótið og síðan erum við líka að reyna að ná inn túristunum sem eru á ferðalagi um landið. Það er svo mikill misskilningur að þetta mót sé bara fyrir hestafólk, þetta er hátíð og við erum að reyna að höfða til fólks með fjölbreyttri dagskrá þannig að ef menn eru hérna í nágrenninu eða á ferðinni um Suðurland þá er auðvelt að kíkja á mótið. Menn skjótast þá bara hingað, kaupa dagpassa í hliðinu og renna hér í gegn, borða góðan mat og fylgjast með því sem um er að vera,“ segir Axel og bætir við að dagpassar verði seldir í hliðinu en nú sé verið að selja helgarpassa og vikupassa á heimasíðu mótsins. https://tickets.landsmot.is/

Landsmótið er einnig mikill sjónvarpsviðburður og þeir sem verða að sitja heima þurfa ekki að fara á mis við það sem er í boði á völlunum. „Við sömdum við RÚV um að senda beint út frá völdum úrslitum. Einnig verðum við í samstarfi við Sjónvarp Símans sem mun senda allt mótið út í beinni útsendingu á sérstakri Landsmótsrás,“ segir Axel að lokum.

Fyrri greinNýjar tölvur fyrir nýja sveitarstjórnarmenn
Næsta greinHeitavatnslaust í hluta Selfossbæjar