Óli Th fékk menningarviðurkenninguna

Ólafi Th. Ólafssyni, myndlistarmanni á Selfossi, var veitt Menningarviðurkenning Árborgar 2014 í dag, á hátíðarsetningu menningarhátíðarinna Vors í Árborg sem fram fer um helgina.

Ólafur er fæddur árið 1936 í Reykjavík en hann flutti á Selfoss árið 1965. Ólafur stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann og útskrifaðist úr honum árið 1979. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Hann kenndi teikningu, myndlist og grunnteikningu í Iðnskóla Selfoss og svo áfram í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hann átti langan og gifturíkan starfsferil. Ólafur hefur reynt fjölmörg listform en í seinni tíð hefur hann einbeitt sér mest að vatnslitamyndum enn vinnur þó alltaf öðru hvoru að olíumálverkum.

Hann hefur einnig verið iðinn við harmonikuleik og var einn af hvatamönnum að stofnun Harmonikufélags Selfoss og nágrennis þar sem hann hefur verið virkur í félagsstarfinu alla tíð.

Á setningarathöfninni söng barna- og unglingakór Selfosskirkju nokkur lög, sem og stórsöngvarinn Gísli Stefánsson. Við sama tilefni var opnuð formlega árleg ljósmyndasýning ljósmyndaklúbbsins Blik, þar sem líta má fjölda glæsilegra ljósmynda og mun sú sýning standa næsta árið í anddyri hótelsins.

Fyrri greinStrákarnir okkar: Viðar með bikarþrennu
Næsta greinStjarnan hafði betur í fyrsta leik einvígisins