Víkurprjón með sólarhringsopnun í sumar

Upp úr miðjum maí hyggst Icewear í Vík í Mýrdal taka upp þá nýjung að hafa verslunina opna allan sólarhringinn og verður sá afgreiðslutími fram undir miðjan ágúst.

„Þetta er tilraun sem við höfum mikla trú á að henti okkar viðskiptavinum vel. Hér í Mýrdalnum og næsta nágrenni er mikil umferð og mikill fjöldi ferðamanna sem dvelst á hótelum á svæðinu. Við höfum orðið verulega vör við að fólk sækist í auknum mæli í það að koma til okkar á kvöldin og versla í rólegheitum. Segja má að reynsla síðustu ára hafi kennt okkur að leggja aukna áherslu á lengri og lengri kvöldopnun. Því ekki að hafa allavega opið meðan bjart er?,“ segir Örn Sigurðsson, rekstrarstjóri Víkurprjóns.

En hvernig er næturopnunin hugsuð? „Hún er hugsuð til að mæta aukinni eftirspurn eftir kvöldverslun, opið alla nóttina er svo tilraun til að mæla hver þörfin er. Vegna mikillar verslunar yfir daginn þá þurfum við að hafa eitthvert starfsfólk fram á nótt til að gera verslunina tilbúna fyrir næstu törn morguninn eftir. Því ákváðum við að stíga skrefið til fulls nýta okkur þá starfskrafta betur og hafa opið. Þó ekki komi nema örfáir viðskiptavinir yfir nóttina þá er öruggt að þeir verða almennt mjög ánægðir viðskiptavinir þó ekki nema fyrir það að geta komist,“ segir Örn.

Fyrri greinFagna skatta- og tollalækkunum
Næsta greinLögreglumönnum fjölgað í sumar