Drottningarkaka

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi hrákaka er alveg klikkaðslega góð!

Kakan er innblásin af hráköku sem ég smakkaði hjá snillingnum henni Dagnýju í Hendur í höfn í Þorlákshöfn. Botninn í þeirri köku var með gráfíkjum en áður en ég smakkaði þá köku hafði mér aldrei dottið í hug að gráfíkjur væri svona góðar. Sú kaka var líka með kasjúhnetufyllingu og með mjúkri karamellu ofan á.

Þessi kaka er samt í raun ekkert eins og sú kaka, en kakan hennar Dagnýjar gaf mér hugmynd að samsetningunni að þessari. Ég mæli eindregið með því að þið takið bíltúr niður í Þorkákshöfn og kíkið í Hendur í höfn ef þið eruð ekki búin að gera það nú þegar. Maturinn þar er alveg meiriháttar!

En við vorum að tala um þessa hráköku hér:

Kakan er ekki ýkja flókin og ætti ekki að taka langan tíma að búa til. Hráefnin eru líka frekar einföld svo að innkaupalistinn ætti ekki að vera mjög langur.

Nafnið á kökuna er komið af því að þessi kaka er að mínu mati drottning allra hrákaka. Þetta er líka kaka fyrir allar drottningar – hvort sem þær eiga kórónu eða ekki.

Botninn:

  • 1 ½ bolli pekanhnetur
  • 1 ½ bolli gráfíkjur
  • 5 msk kókosolía, við stofuhita
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Allt sett saman í matvinnsluvél og blandað vel saman eða þar til hráefnið loðir allt vel saman.
  2. Klæðið hringlaga kökumót (með lausum botni) með bökunarpappír og setjið deigið ofan í. Þjappið vel niður með höndunum og jafnið úr botninum í leiðinni.
  3. Setjið inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:

  • 1 ½ bolli kasjúhnetur (sem hafa verið lagðar í bleyti í minnst 6 klst)
  • 1/3 bolli kókospálmasykur
  • ½ bolli kókosmjólk
  • ¼ bolli kókosolía, við stofuhita
  • 3 msk sítrónusafi (úr ferskri sítrónu)
  • 1 tsk lífrænir vanilludropar
  • 2 msk hlynsíróp
  • Örlítið sjávarsalt

Aðferð:

  1. Allt blandað saman í blandara eða þar til blandan er orðin silkimjúk og kekkjalaus.
  2. Hellið fyllingunni yfir botninn og setjið mótið aftur inn í frysti.
  3. Geymið mótið í frystinum í amk 3 klst áður en þið setjið karamelluna á.

Karamellan:

  • 1 bolli kókospálmasykur
  • 6 msk kókosmjólk („full fat“)
  • 1 tsk lífrænir vanilludropar
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Setjið kókospálmasykurinn á pönnu ásamt kókosmjólkinni og stillið á hæsta straum.
  2. Þegar sykurinn er byrjaður að bráðna hærið þá í með sleikju. Passið að karamellan brenni ekki við – það getur gerist mjög auðveldlega.
  3. Þegar karamellan er byjuð að þykkna, takið þá pönnuna af hellunni (ekki gleyma að slökkva undir!) og setjið vanilluna og sjávarsaltið saman við. Hrærið vel.
  4. Leyfið karamellunni að kólna örlítið en alls ekki of lengi. Hún er fljót að verða seig.
  5. Sækið mótið úr frystinum og dreifið karamellunni yfir kökuna. Gott að losa formið og taka bökunarpappírinn frá á meðan þið dreifið karamellunni yfir. Best er að nota skeið til að dreifa karamellunni yfir – láta hana leka yfir kökuna þvers og krus.
  6. Þegar þið eruð búin að setja karamelluna yfir alla yfir kökuna, setjið hana þá aftur inn í frysti og geymið í nokkrar klukkustundir – best yfir nótt.
  7. Kakan þarf svo að fá að þiðna aðeins á borðinu (sirka 15 mín) áður en hún er skorin.

Njótið!

ATH! #1 Ef kókospálmasykurinn er mjög grófur þá er gott að skella honum í blandarann í smá stund áður en hann er notaður. Þetta á sérstaklega við um fyllinguna.
ATH! #2 Þið megið nota meiri eða minni sætu í fyllinguna ef þið viljið – meira eða minna hlynsíróp/kókospálmasykur. Það er svo misjafnt hversu sætt fólk vill hafa hlutina.
ATH! #3 Þið getið líka notað lífrænt vanilluduft (brúna duftið) ef þið eigið ekki lífræna vanilludropa. Athugið að þið þurfið mun minna af því – hálf teskeið er meira en nóg.
ATH! #4 Ég hef sagt það áður og segi það aftur – lífrænar kasjúhnetur bragðast svo miklu betur en ólífrænar. Kasjúhneturnar frá Sólgæti eru t.d. mjög góðar.
ATH! #5 Karamellan er alveg brennandi heit til að byrja með – vinsamlegast standist freistinguna að smakka á henni! Ekki nema þið viljið hreinlega brenna ykkur.

Fyrri greinHSK met í hálfu og heilu maraþoni ekki gild
Næsta greinFjórir sæmdir gullmerki á afmælishátíð GÚ