Bláberjagleði (raw og vegan)

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi hrákaka er alveg meiriháttar góð.

Átta mánaða gamall sonur minn elskar þessa köku. Tengdapabbi -sem er 75 ára – er líka mjög hrifinn af henni. Það má því segja að þessi kaka henti öllum aldurshópum.

Botn:

  • 1 bolli valhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 1 bolli döðlur
  • 3 msk hlynsíróp
  • 2 msk kókosolía
  • Smá sjávarsalt.

Aðferð:

  1. Hellið vatninu af valhnetunum og skolið hneturnar með volgu vatni.
  2. Setjið valhneturnar í blandara eða matvinnsluvél og kurlið niður.
  3. Setjið valhneturnar í skál og leggið til hliðar.
  4. Setjið kókosmjölið í skálina og hrærið saman við valhneturnar.
  5. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið liggja í að minnsta kosti 10 mín.
  6. Hellið vatninu af döðlunum og setjið í blandara eða matvinnsluvél ásamt hlynsírópinu, kókosolíunni og sjávarsaltinu. Blandið vel saman eða þar til döðlurnar eru orðnar að mauki.
  7. Setjið döðlumaukið í skálina með valhnetunum og kókosmjölinu. Blandið vel saman.
  8. Setjið deigið í hringlaga mót og þjappið vel niður með höndunum.
  9. Leggið til hliðar á meðan þið búið til fyllinguna.

Fylling:

  • 1 og ½ bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • ¼ bolli kókosolía, við stofuhita
  • 1 bolli (tæplega) kókosmjólk
  • ½ bolli hlynsíróp (meira eða minna eftir hversu sætt þið viljið hafa fyllinguna)
  • 3 msk sítrónusafi úr ferskri sítrónu
  • 2 tsk vanilla
  • Smá sjávarsalt
  • 1 bolli bláber (ef notuð eru frosin þá þurfa þau að þiðna fyrst)

+ bláber til að skreyta kökuna með

Aðferð:

  1. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og skolið þær með volgu vatni.
  2. Setjið kasjúhneturnar í blandara ásamt restinni af hráefninu – fyrir utan bláberin.
  3. Blandið vel saman eða þar til blandan er orðin silkimjúk.
  4. Hellið helmingnum af blöndunni í skál og leggið til hliðar.
  5. Setjið nú bláberin í blandarann og blandið vel saman við hinn helminginn af fyllingunni.
  6. Hellið bláberjablöndunni yfir valhnetubotninn, dreifið vel úr með sleikju og setjið inn í frysti í sirka klukkutíma.
  7. Takið mótið úr frystinum og hellið restinni af fyllingunni yfir bláberjafyllinguna. Dreifið vel úr með sleikju.
  8. Skreytið með bláberjum. Athugið að þið þurfið að þrýsta bláberjunum lauslega niður í fyllinguna.
  9. Setjið kökuna inn í frysti.
  10. Geymið í frysti yfir nótt. Kakan þarf svo að fá að standa á borðinu í smá stund (alls ekki lengi) áður en hún er skorin.

Njótið!

Fyrri greinKöttur sló út rafmagninu í Þorlákshöfn
Næsta greinDramatík í bikarnum hjá Selfossi og Hamri