Kristínarkaka (hnetulaus)

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi kaka er hnetulaus, án glútens, mjólkurvara og annarra dýraafurða.

Kakan ætti því að henta breiðum hópi fólks.

Ég ákvað að nefna kökuna eftir Kristínu frænku minni sem er með hnetuofnæmi. Það er ekkert grín að vera með hnetuofnæmi og langa til að gera hráköku þar sem nær allar hrákökur innihalda hnetur.

Hugmyndin að kökunni kviknaði þegar vinkona mín bað mig um uppskrift að hnetulausri hráköku. Ég hef einhvern tíman gert hnetulausar hrákökur en aldrei þótt þær það góðar að ég myndi gera þær aftur. Þessi kaka er aftur á móti það góð að ég mun gera hana aftur og aftur.

Ég hugsaði um þessa köku í þrjá daga – hvernig ég vildi hafa hana, hvernig áferð ég vildi hafa á henni, hvaða hráefni gætu passað saman o.s.frv. Þegar ég var búin að hugsa nógu lengi um kökuna hófst ég handa og útkoman varð betri en ég þorði að vona. Ég vona að þið verðið jafn ánægð með kökuna eins og þeir sem hafa smakkað hana hjá mér 🙂

Athugið. Í botninum er möndlusmjör. Margir geta borðað möndlur þó að þeir séu með hnetuofnæmi. Þið skulið samt alltaf spyrja til að vera alveg viss ef þið eruð að gera köku fyrir einhvern sem er með hnetuofnæmi. Það er allt í lagi að sleppa möndlusmjörinu. Það gefur aftur á móti smá „kikk“ svo að endilega notið það ef enginn er með ofnæmi fyrir því.

Botninn:

  • 1 bolli mórber
  • 1 bolli glútenlaust haframjöl (ég notaði frá Amisa)
  • ½ bolli kókoshveiti
  • 1 tsk vanilla
  • Smá sjávarsalt
  • ⅓-½ bolli kókosolía, við stofuhita
  • 3 msk dökkt möndlusmjör* (má sleppa)

*Ef viðkomandi er með ofnæmi fyrir möndlum, sleppið þá möndlusmjörinu

Aðferð:

  1. Setjið mórberin í matvinnsluvél eða blandara og kurlið fínt niður. Setjið í skál og leggið til hliðar.
  2. Setjið haframjölið í blandara og malið niður í fínt mjöl. Setjið í skálina með mórberjunum.
  3. Setjið kókoshveitið, vanilluna og sjávarsaltið í skálina og blandið vel saman.
  4. Hellið kókosolíunni út í og bætið við möndlusmjörinu. Blandið vel saman með sleif. Gott að enda á að nota hendurnar og „klípa“ deigið þar sem möndlusmjörið getur verið ansi þykkt. Ef ykkur finnst deigið vera mjög þurrt þegar þið eruð búin að „hnoða“ það, bætið þá smá kókosolíu við en bara lítið í einu. Deigið á að vera þétt og halda sér vel.
  5. Setjið bökunarpappír í hringlaga kökumót og setjið deigið í. Þrýstið deiginu vel niður með höndunum.
  6. Setjið inn í frysti á meðan kremið er búið til.

Döðlukrem:

  • 2 bollar döðlur
  • ⅔ bollr vatn
  • 2 msk kókosolía
  • 1 tsk vanilla
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið liggja í skálinni í sirka 10 mín. Þetta er gert til að mýkja möndlurnar þannig að það sé auðveldara að mauka þær.
  2. Hellið vatninu af döðlunum og kreistið mesta vatnið úr þeim.
  3. Setjið döðlurnar í blandara ásamt restinni af hráefninu og blandið vel saman eða þar til blandan er orðin silkimjúk og með jafnan lit.
  4. Hellið döðlumaukinu yfir botninn.
  5. Skreytið með mórberjum og muldum kókosflögum.
  6. Setjið aftur inn í frysti og geymið í nokkrar klukkustundir, helst yfir nótt. Kakan þarf svo að fá að standa í smá stund á borðinu áður en hún er skorin (ekki lengi samt). Botninn er stökkur en kremið mjúkt, sem gerir hana alveg dásamlega 🙂

Njótið!

Fyrri greinMest aukning umferðar á Hellisheiði
Næsta greinStórt pennasafn til sýnis á Selfossi