Grænmetislasagne sem kemur öllum í gott skap

FAGURGERÐI – MATUR // Þetta lasagne hef ég gert í mörg ár og er alltaf jafn gott.

Hráefni:

  • 1 stk laukur
  • 4 hvítlauksrif
  • 500 gr gulrætur
  • 2x rauðar paprikur
  • 1 box af sveppum
  • 400 ml maukaðir tómatar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 2 msk næringarger

Krydd:

  • Sjávarsalt
  • Svatur pipar
  • Cayennepipar (örlítinn)
  • Oregano
  • Majoran
  • Timjan (lítið)

+ Lasagneblöð

+ Rifinn ostur (ég notaði vegan pizzuost)

Aðferð:

  1. Saxið grænmetið frekar fínt niður. Gott að skera gulræturnar fyrst langsum og svo þversum.
  2. Steikið grænmetið í potti og kryddið.
  3. Þegar grænmetið er byrjað að mýkjast hellið þá maukuðu tómötunum í pottinn ásamt tómatpúrrunni, næringargerinu og grænmetiskraftinum.
  4. Látið malla við við vægan hita í sirka 15-20 mín. Hærið í öðru hvoru.
  5. Setjið grænmetissósu og lasagneblöð til skiptis í eldfast mót þannig að það sé sósa, plötur, sósa, plötur og sósa. Endið á að setja ostinn yfir. Gott að setja smá svartan pipar yfir ostinn áður en fatið fer í ofninn.
  6. Setjð inn í ofn og bakið í 30 mín við 180°.

Njótið!

ATH. #1 Hægt er að nota glútenfríar lasagneplötur. Ég kaupi mínar alltaf af iherb.com (þau senda beint til Íslands).

ATH. #2 Það er mjög mikilvægt að setja ekki of mikið af cayennepiparnum því að hann er mjög bragðsterkur. Það er auðvelt að eyðileggja góða rétti ef maður setur of mikið. Nokkar „hristur“ eru meira en nóg.

ATH. #3 Ef þið eigið ekki næringarger eða notið það alla jafnan ekki, þá megið þið sleppa því. Mér finnst það aftur á móti alveg nauðsynlegt því að það gefur svona hnetu-ostakeim. Þið getið t.d. fundið næringarger í Sollu-deildinni í Bónus eða heilsudeildinni í Nettó.

ATH. #4 Þið getið prófað að nota aðra samsetningu af grænmeti, t.d. brokkólí í staðinn fyrir gulrætur – eða bara það sem er til í ísskápnum. Það eru fyrst og fremst kryddin sem gera þetta grænmetislasagne svona gott svo ekki svindla á þeim og nota bara sesaon all eða eitthvað álíka 🙂

Fyrri greinLokatölur í Suðurkjördæmi
Næsta greinÚtgáfuhátíð fjögurra bóka