Gróusúpa

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi súpa er alveg ekta súpa til að fá sér á köldum rigningardegi.

Uppskriftin að súpunni er fengin frá Gróu vinkonu minni, einnig þekkt sem Gróa Kakónibba. Gróa gerði einmitt þessa súpu á síðasta Kakónibbuhittingi og sló súpan heldur betur í gegn.

Þessi súpa er bragðsterk og rífur vel í. Ef þið eruð með kvef þá eru góðar líkur á að allt hor og slen verði horfið að mestu eftir eins og einn eða tvo súpudiska.

Ég breytti uppskriftinni örlítið en í grunninn er hún sú sama og Gróa gerði.

Hráefni

  • 1 msk kókosolía
  • 1 lítill rauður chilli pipar
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 lítill gulur laukur
  • Lítill bútur af engiferi (sirka ½ „þumall“)
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 msk red curry paste
  • 2 meðal stórar sætar kartöflur
  • 2 stórar gulrætur
  • 1 gul paprika (má líka vera rauð)
  • 400 ml maukaðir tómatar
  • 400 ml kókosmjólk
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1 tsk cuminduft
  • 1 tsk sjávarsalt
  • ½ tsk túrmerik
  • Svartur pipar (slatti en ekki of mikið)
  • Smá cayenne pipar (nokkrar hristur)
  • 1 líter af vatni
  • Safi úr 1 lime
  • 1-2 msk hunang (ég mæli með Rowse)

+ ferskur kóríander og glútenlaust snakk (ég notaði Popcorners snakk með sjávarsalti, fæst m.a. Bónus)

Aðferð:

  1. Saxið chillipiparinn og laukinn smátt niður, pressið hvítlauksrifin og rífið niður engiferið. Setjið til hliðar.
  2. Setjið kókosolíuna í stóran pott og stillið á hæsta straum. Þegar hellan er orðin vel heit, setjið þá chillipiparinn, laukinn, hvítlaukinn og engiferið í pottinn. Hrærið vel í. Ef það þarf meiri vökva, bætið þá meiri vatni við.
  3. Setjið tómatpúrruna og curry paste-ið í pottinn og hrærið vel. Ef þarf meiri vökva, bætið þá meiri vatni við.
  4. Flysjið sætu kartöflurnar og saxið smá niður. Setjið í pottinn jafn óðum og þið saxið. Hrærið reglulega í pottinum og bætið við vatni ef þarf (samt ekki of miklu, bara svo rétt að það fljóti yfir grænmetið).
  5. Skerið gulræturnar, fyrst langsum og svo þversum (eða bara eins og þið viljið). Fræhreinsið paprikuna og saxið smátt niður. Setjið í pottinn og hrærið vel.
  6. Setjið maukuðu tómatana og vatnið í pottinn. Mér finnst best að fylla krukkuna af maukuðu tómötunum aftur af vatni þannig að flaskan skolist vel (og ekkert fer þá heldur til spillis af maukuðu tómötunum).
  7. Bætið við kryddunum og hrærið vel í pottinum.
  8. Lækkið hitann undir pottinum og látið súpuna malla í sirka 30 mín.
  9. Þegar súpan er tilbúin, takið þá pottinn af hellunni og kreistið safa úr einni lime yfir ásamt því að setja hunangið út í. Hrærið vel í pottinum. Ef ykkur finnst súpan of bragðsterk gæti verið gott að bæta aðeins meira af hunangi við. Athugið samt að þetta er mjög bragðmikil súpa sem rífur í.
  10. Skammtið ykkur súpuna á disk og rífið ferskan kóríander yfir ásamt því að mylja snakki yfir. Athugið að þetta tvennt er ekki nauðsynlegt en gerir mikið fyrir útlitið og framsetninguna á súpunni 🙂

Njótið!

Fyrri greinSkrifað undir viljayfirlýsingu um stuðning við Kötlu jarðvang
Næsta greinBorgarafundur í Suðurkjördæmi