Sunnudags sælgæti

FAGURGERÐI – MATUR // Stundum langar manni í eitthvað gott, hollt og fljótlegt – eitthvað sem maður getur búið til á engri stundu.

Þessi uppskriftin er sáraeinföld þó að hún innihaldi kannski mörg hráefni. Hlutföllin eru heldur ekki heilög en það er gott að hafa þessar mælingar fyrir neðan til viðmiðunar.

Hráefni:

  • 1 bolli heslihnetur (best ef þær eru lagðar í bleyti yfir nótt)
  • 2 msk möndlusmjör (ég notaði raw frá Biona)
  • 4 msk mórber
  • 2 msk hempfræ
  • 2 msk gojber
  • 2 msk kakónibbur
  • 2 msk raw kakó (eða bara lífrænt og hreint ef raw er ekki fáanlegt)
  • 1 msk lucuma
  • 1 tsk lífænt vanilluduft
  • Smá sjávarsalt
  • 2 msk kókossíróp*
  • 1/3 bolli kókosolía, við stofuhita

Aðferð:

  1. Kurlið hneturnar niður (ég notaði handkurlara, annars er matvinnsluvélin fín í þetta). Setjið hnetukurlið í skál.
  2. Setjið allt nema kókosolíuna og kókossírópið í sömu skál og blandið vel með sleikju.
  3. Hellið kókosolíunni og kókossírópinu í skálina og blandið enn betur saman með sleikjunni.
  4. Notið tvær teskeiðar til að setja „deigið“ í sílikonform. Þjappið aðeins ofan á degið þegar það er komið í fromið.
  5. Setjið inn í frysti í hálftíma eða svo. Eftir hálftíma ættu molarnir að vera orðnir nógu þéttir í sér til að maður geti haldið á þeim.

Njótið!

ATH. #1 Það er örugglega í góðu lagi að nota lítil muffinsform fyrir þetta sælgæti – eða bara móta litlar kúlur og setja á smjörpappír (með bretti eða diski undir) og inn í frysti.

ATH. #2 Ég notaði kókossíróp frá Biona. Það er með lágan sykurstuðul eða sykurstuðulinn 35. Þegar við veljum sætu og ávexti er gott að leitast við að velja það sem er með lágum sykurstuðli. Sjá nánar hér.

johanna@sunnlenska.is

Fyrri greinSlökktu eld í sinu
Næsta greinFerðaþjónustan bætir hag sveitarfélagsins