Ljúfir kærleiksmolar

FAGURGERÐI – MATUR // Nú líður að jólum og flestir í óða önn að undirbúa jólin. Aðventan er yndislegur tími, tími til að njóta og tími fjölskyldunnar.

Við megum ekki gleyma því að það er dýrmætast af öllu, samveran og fjölskildan. Jólin koma hvernig sem fer, hversu mikið sem er eftir ógert. Þau koma þó það sé ryk í hornum eða bara búið að baka eina sort. Þau koma þó gjafirnar séu ekki dýrar. Þau koma!

Margir eru enn á fullu í vinnu og finnst þeir hafa lítinn tíma til baksturs og annars umstangs. Þá er oft gripið til þess að kaupa kökur og sælgæti ekki síst ef orkan er á þrotum.

Sumir mikla kannski fyrir sér að baka eða finnst taka of langan tíma að búa til konfekt en það þarf þó alls ekki að vera svo flókið og er mikið hollara og betra fyrir kroppinn okkar og sálina heldur en það sem stendur í stöflum í stórmarkaðnum.

Hér fylgir afar einföld uppskrift sem auðvelt er að leika sér með og allir ráða við að gera, stórir og smáir.

Hún er líka stútfull af góðri næringu og orku fyrir okkur og það er einmitt það sem við viljum gefa okkur.

Desember á ekki að vera þrælatími heldur tími til að huga að okkur sjálfum og fjölskyldunni. Tími kærleika.

Ljúfir kærleiksmolar

Þessi litlu hjörtu bræða hjarta hvers manns.

Innihald:
Kókosolía*
Kakósmjör*
Blómafrjókorn**
Gojiber

Aðrir möguleikar/viðbætur:
Mórber
Kasjúhnetur eða aðrar hnetur/möndlur
Appelsínu- eða sítrónubörkur af lífrænum ávöxtum
Kakónibbur
Kakó
Vanillukorn, kanill eða chilli/cajenna
Sesamfræ

Aðferð:
1. Bræðið kókosolíu og kakósmjör við vægan hita. Best er að gera það í vatnsbaði. Hlutföllin eru algjörlega frjáls og auðvitað er líka hægt að nota bara annað hvort. Magnið fer bara eftir fjölda konfektforma og það er auðvelt að bræða bara meira ef þarf.
2. Blandið síðan saman í við bráðina blómafrjókornum og gojiberjum. Hér eru hlutföllin einnig frjáls og líki manni ekki annað hvort þeirra er ekkert mál að skipta t.d. gojiberjum út fyrir mórber og/eða blómafrjókornum út fyrir kakónibbur. Einnig er hægt að rífa ferskan appelsínubörk út í blönduna, setja smá vanillukorn eða hnetur og fræ.
3. Það er engin sæta í grunnuppskriftinni enda eru bæði blómafrjókorn og gojiber sæt svo þess gerist ekki þörf. Ef þið skiptið þeim út fyrir eitthvað ósætt getur verið sniðugt að setja nokkra dropa af hunangi eða annarri sætu með. En farið varlega í það svo að blóðsykurinn fari ekki á flakk.
4. Blöndunni góðu er nú skellt með teskeið í formin og þau sett í frysti og eftir u.þ.b. 20 mínútur eru þessir litlu ljúfu næringarríku molar tilbúnir. Best er að geyma þá í frysti þar sem kókosolían bráðnar fljótt við stofuhita.

Og þá er bara að njóta! Og þetta tók ekki nema örfáar mínútur að útbúa og nokkrar til viðbótar í bið – sem maður notar auðvitað til þess að skrifa jólakort handa vinum og kunningjum.

* Það má auðvitað líka bræða gott dökkt súkkulaði (auðvelt er að nálgast gæða súkkulaði í heilsuvörudeildum eða verslunum, án hvíts sykurs) en það er eitthvað við litagleðina í hvíta súkkulaðinu sem er svo heillandi.

** ef þú ert með frjókornaofnæmi skalltu sleppa þessu og setja t.d. kakónibbur

Nokkur dæmi um hvernig má leika sér með kókosolíu og kakósmjörgrunninn.
– Kakónibbur og chilli
– Appelsínu-/sítrónubörkur, kasjúhnetur og ljósar rúsínur
– Vanilla, sesamfræ og mórber
– Möndlur, kanill og kakó

Verði ykkur að góðu og megið þið eiga kærleiksrík jól!!!

olof@fagurgerdi.is

Fyrri greinNýr klippubúnaður í Þorlákshöfn
Næsta greinHamar fékk skell á útivelli